Ætlar að fara og sjá soninn keppa á stóra sviðinu í Evrópusöngvakeppninni
Íslendingar geta með góðri samvisku greitt króatíska framlaginu í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva atkvæði sitt á vor því móðir söngvarans býr á Egilsstöðum. Þar starfar hún við matreiðslu og skrifar bók í frístundum.„Ég er enn hálf ringluð. Við áttum alltaf von á að hann næði langt en þetta er samt óvænt. Hann er bara 18 ára gamall og enn í skóla,“ segir Marija Sartlija-Blazevic, matreiðslumaður á Salti.
Marija er móðir Roko Blazevic, söngvarans sem síðasta laugardag fór með sigur af hólmi í Dora, forkeppni króatíska sjónvarpsins. Þar með er ljóst að Roko syngur lagið „The Dream“ eða Drauminn á stóra sviðinu í Tel Aviv í Ísrael í maí.
Hinn króatíski Michael Bublé
Marija segir Roko hafa hrærst í tónlist allt sitt líf. Fimm ára gamall hafi hann verið farinn að læra á píanó og verið í tónlistarskóla í tíu ár. Sönghæfileikar hans hafa einnig verið ljósir í nokkurn tíma. Sjö ára gamall var hann eitt tólf barna sem söng þegar tónverk Pink Floyd, The Wall, var sett upp í heimaborg hans Split með aðalhöfundi verksins, Roger Waters. Hann hefur einnig sungið í óperuuppfærslum, eins og á Carmena Burana. Hann hefur hins vegar sérhæft sig í að syngja ballöður að undanförnu.
Þá hefur Roko tekið þátt í sjónvarpsþáttum þar sem leitað er að næstu söngstjörnum í bæði Serbíu og Króatíu. Í keppninni í Króatíu, sem lauk í desember, naut hann leiðsagnar Jacques Houdek, sem keppti fyrir hönd Króata í Evrópusöngvakeppninni árið 2017 og samdi fyrir hann The Dream. Roko varð þar í öðru sæti og fékk viðurnefnið hinn króatíski Michael Bublé.
„Stjörnuleitin breytti miklu því eftir hana þekkti fólkið Roko. Houdek samdi lagið fyrir hann og hann fékk tvo mánuði til að undirbúa sig.“
Atkvæðin tryggð á vinnustaðnum
Eftir stjörnuleitina tók við forkeppnin fyrir Evrópusöngvakeppnina og þá náði Roko fyrsta sætinu. „Ég horfði á í gegnum netið og var í stöðugum samskiptum við hann í gegnum net og síma.
Starfsfólkið hér óskaði mér til hamingju. Yfirmaðurinn minn er vel að sér í tónlist og hann tók á móti mér þegar ég kom til vinnu og sagði að þau myndu öll kjósa Roko. Ég ætla til Ísraels og sjá hann syngja þar,“ segir Marija. Roko mætir á sviðið 16. maí í seinni undanúrslitunum en Íslendingar verða í fyrri undanúrslitunum.
Mikil tónlist er í fjölskyldu Roko. Eldri bróðir hans spilar á kontrabassa og faðir þeirra er í hóp sem syngur án undirleiks. Hópurinn, sem kennir sig við Dalmatia svæðið, hefur unnið til verðlauna á Evrópuvísu. Þá er ótalin móðirin.
„Ég byrjaði í jazzballet og fór síðan yfir í þjóðdansa. Ég var í flokki sem dansaði víða um Evrópu. Ég söng líka bakraddir en röddin mín er ekki jafn góð og hún var. Tónlistin á samt alltaf sérstakan stað í mínum hjarta og ég hlusta alltaf á tónlist.“
Fékk viku til að ákveða sig
Marija kom til Íslands í júní síðastliðnum og hefur síðan unnið á veitingastöðum sem reknir eru á vegum 701 Hotels. „Ég kom hingað 21. júní. Fyrrverandi yfirmaður minn í Króatíu var að vinna hér og hann spurði hvort ég vildi ekki koma hingað og prófa. Hann sagði mér að það vantaði fólk og ég hefði viku til að ákveða mig.
Ég vissi að veðrið hér væri allt öðruvísi, í Split fer hitinn upp í 45 gráður á sumrin, en þetta er í lagi því ég elska snjó. Ég óttaðist að ég myndi sakna sona minna en þeir eru nánast orðnir fullorðnir. Ég sló til því ég sá þetta tækifæri til að safna peningum, mig hefur alltaf langað til að opna eigin stað. Hann þarf ekki að vera stór, 3-4 borð og horn með hljóðfærum halda strákunum.“
Hrifin af íslensku brauðtertunni
Marija lærði blómaskreytingar en segist hafa byrjað að elda 12 ára gömul heima hjá móður sinni. Á tíunda áratugnum, þegar Króatía var að rísa úr borgarastríðinu, þjónaði hún til borðs á veitingastöðum.
„Mér fannst ég vera orðin of gömul til að þjóna en mér bauðst vinna við matseld. Hún hefur alltaf verið áhugamálið mitt og ég fagnaði því að fá greitt fyrir það sem mér fannst gaman,“ segir Marija sem er að ljúka matreiðslumeistaranámi í Króatíu.
Hún segir það hafa verið nokkur viðbrigði fyrir hana að kynnast íslenskri matargerð. „Mér fannst hann alltof kryddaður og svo fannst mér sérstakt að alltaf væri blandað saman söltu og sætu.“
Hún hefur á stuttum tíma tileinkað sér íslenska siði. „Ég fékk uppskrift hjá einum samstarfsmanna minna frá ömmu hans að brauðtertu, þið vitið þessa með eggjum og majónesi. Ég gerði hana fyrir syni mína þegar ég fór heim í jólafrí og þeim fannst hún dásamlegt. Kannski ég verði með einhverja íslenska rétti á staðnum mínum í Króatíu þannig fólk geti prófað.“
Skrifar bók í frístundum
Það virðist reyndar ekkert fararsnið á henni. Meðan við tölum saman kemur hún inn á hvað henni finnist Ísland fallegt og friðsælt. Hún er einnig að læra íslensku.
„Fyrst hugsaði ég ekkert um að læra málið, mér fannst það of framandi, of erfitt. Mér finnst hins vegar erfitt að geta ekki sagt meira en halló ef ég þarf að afgreiða fólk. Íslendingar eru kurteisir og fyrst þeir eru góðir við mig, hví á ég ekki að læra málið þeirra. Ísland er orðið eins og mitt annað heimili.“
Hún nýtir frítímann úr vinnunni í ýmislegt fleira. „Ég er að skrifa bók, mig hefur alltaf langað til þess. Ég er líka í sjálfboðaliðastarfi með fólki með fötlun, líkt og ég gerði þegar ég var í skóla.“
Hlýtur að geta tekið nokkur lög á Egilsstöðum
Næstu mánuði má þó reikna með að frítími hennar fari líka í að fylgjast með undirbúningi Roko fyrir stóru keppnina. „Ég hef fylgst með söngvakeppninni frá því ég var barn. Í Króatíu kemur fjölskyldan saman til að horfa á keppnina, hvort sem fólkinu finnst tónlistin góð eða ekki. Við segjum líka alltaf að megi sá besti vinna.
Þannig er það líka þegar Roko er að keppa. Við erum raunsæ og hann líka. Í hans huga er nóg að hann sé að fara í úrslitakeppnina. Hann trúir þessu ekki enn,“ segir Marija og bætir við loforði um að Roko muni syngja fyrir Austfirðinga.
„Synir mínir ætla að koma til Egilsstaða í sumar. Ég sagði við Roko að við myndum halda tónleika hér, ég veit ekki hvort það gangi eftir því hann er kominn með samning við umboðsmann, en hann hlýtur að geta tekið nokkur lög.“