Skip to main content

„Allir bæjarbúar leggjast á eitt við undirbúning“

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 15. jún 2018 13:06Uppfært 15. jún 2018 13:22

„Breiðdælingar eru spenntir að bjóða gestum heim. Undirbúningur gengur vel og allt er að smella saman,“ segir Þorgils Haukur Gíslason, formaður ungmennafélagsins Hrafnkels Freysgoða, en 17. júní hátíðarhöld í Fjarðabyggð verða að þessu sinni haldin á Breiðdalsvík í samvinnu við félagið.


„Mannskapurinn er bjartur og allir bæjarbúar leggjast á eitt við undirbúning þessarar fyrstu þjóðhátíðar okkar Breiðdælinga í Fjarðabyggð. Svo er bara spurning  hvort að veðrið spili með, það var rigningarspá alla vikuna sem virðist vera að snúast í sól. Ef það verður leiðinlegt þá bara flytjum við dagskrána inn í hús. Hér á Breiðdalsvík eru engin vandamál, bara lausnir,“ segir Þorgils.

Glæsilegri dagskrá lýkur með útitónleikum við gamla bátinn á staðnum. Boðið verður upp á ókeypis rútuferðir og eru íbúar hvattir til að nýta sér þær. Dagskrána í heild sinni má sjá hér.

Egilsstaðir
Hefðbundin dagskrá verður á Egilsstöðum, en þar verða einnig opnaðar þrár sýningar, sem tíundaðar eru hér neðar í textanum. Hátíðardagskrána í heild sinni má sjá hér.

Djúpivogur
Hefðbundin þjóðhátíðardagskrá verður á Djúpavogi sem hefst með skrúðgöngu frá íþróttahúsinu klukkan 14:00. Hátíðardagskrána í heild sinni má sjá hér.

Seyðisfjörður
Seyðfirðingar bjóða meðal annars upp á hátíðlega athöfn í kirkjugarði, 17. júní hlaup barna, fallbyssuskot, skemmtidagskrá, babú-bíla og messu. Hátíðardagskrána í heild sinni má sjá hér.

Sumarsýningar í Sláturhúsinu og Safnahúsinu á Egilsstöðum
Hefð er fyrir því að menningarstofnanir á Fljótsdalshéraði opni sumarsýningar sínar á 17. júní. Í ár verður engin undantekning þar á og fjölbreyttar sýningar í boði bæði í Safnahúsinu og Sláturhúsinu.

 

Nr. 2. Umhverfing
Á þjóðhátíðardaginn, 17. júní verður myndlistarsýningin Nr. 2 Umhverfing opnuð á þremur stöðum á Egilsstöðum. Þar verða til sýnis verk eftir rúmlega 30 listamenn sem allir eiga það sameiginlegt að tengjast Fljótsdalshéraði á einn eða annan hátt. Sýningin er hluti af seríu sýninga sem settar verða upp hringinn í kringum landið á næstu árum. Fyrsta sýningin var sett upp á Sauðárkróki í fyrra og bar hún titilinn Nr. 1 Umhverfing. Hugmyndin að baki verkefninu er að setja upp myndlistarsýningar í óhefðbundnum rýmum þar sem ekki er hefð fyrir nútíma myndlistarsýningum. Nú er komið að Egilsstöðum. Sýningarstaðirnir eru þrír, Safnahúsið, Sláturhúsið og hjúkrunarheimilið Dyngja. Í tengslum við sýninguna hefur verið gefin út samnefnd bók með upplýsingum um listamennina og verk þeirra. Í Safnahúsinu verður formleg opnun kl. 15:30 og í Sláturhúsinu kl. 16:00. 

Austfirskt fullveldi – Sjálfbært fullveldi?
Í Safnahúsinu verður opnuð sýningin Austfirskt fullveldi – Sjálfbært fullveldi? Í tilefni af 100 ára afmæli fullveldi Íslands hafa níu austfirskar mennta-, menningar-, og rannsóknarstofnanir hafa tekið höndum saman til að skoða á nýstárlegan hátt austfirskt fullveldi, sjálfbærni og tengslin þar á milli. Á sýningunni verður dregin upp mynd af lífi barna árin 1918 og 2018 og líf þeirra og nánasta umhverfi spegluð við heimsmarkmið sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Sýningin skiptist í fjóra hluta sem settir verða upp á Skriðuklaustri í Fljótsdal, Tækniminjasafninu á Seyðisfirði og í Randulfssjóhúsi á Eskifirði auk Safnahússins á Egilsstöðum.
Í tengslum við verkefnið hefur verið opnuð vefsíða: www.austfirsktfullveldi.is

Gull og gersemar í Sláturhúsinu
Í Sláturhúsinu verður opnuð leikfangssýningin Gull og gersemar en þar má sjá leikföng barna á Héraði frá ýmsum tímum. Leikföngin koma víða að, sum úr safnkosti Minjasafns Austurlands en önnur frá einkaaðilum.

Sumarsýning Skaftfells
Skaftfell – myndlistarmiðstöð Austurlands fagnar 20 ára starfsafmæli um þessar mundir og hefjast veisluhöldin með opnun á sýningunni Kapall í sýningarsalnum og afmælisdagskrá og léttum veitingum í garðinum á laugardaginn klukkan 16:00. Á sýningunni Kapall er varpað ljósi á þær miklu breytingar og framfarir sem samskiptatæknin hefur haft í för með sér. Offlæði upplýsinga og sífellt hraðari samskipti nútímans vekja upp hugleiðingu um kapalinn, – strenginn sem símasamskiptin fóru fyrst um á Íslandi fyrir rúmri öld og kom á land á Seyðisfirði. Nánar má lesa um sýninguna hér

Vaki þjóð – menningardagskrá í Miklagarði á Vopnafirði
Ævi og störf skáldsins Þorsteins Valdimarssonar verður gerð skil í glæsilegri í Miklagarði á Vopnafirði á laugardaginn klukkan 15:30. Í dagskránni verður fjallað um sögu og flutt verk Þorsteins Valdimarssonar, skálds sem fæddist á fullveldisárinu 1918. Í tengslum við viðburðinn er hátíðarkaffi Einherja að þessu sinni þann 16. júní í stað þess 17, en það er öllum opið og endurgjaldslaust. Hér má sjá dagskrána og lesa nánar um viðburðinn.

Elín og Markús í Fjarðaborg
Elín Elísabet og Markús Bjarnason verða með tónleika í Fjarðaborg á Borgarfirði á laugardagskvöld. Elín er teiknari og gaf út bókina Onyfir um Borgarfjörð eystri árið 2016. Undanfarin misseri hefur hún sungið með Kórus, kór lagahöfunda og nýverið komið fram sem sóló-tónlistarkona. Markús Bjarnason hefur spilað í fjölda hljómsveita í gegnum tíðina og m.a. gefið út plötuna The Truth, the Love, the Life undir nafninu Markús & The Diversion Sessions. Nýjasta lag Markúsar heitir Seinasta tegundin og er dúett með Elínu, en tónlist hans má lýsa sem jaðarskotnu þjóðlagapoppi. Hér má lesa nánar um viðburðinn.

Ljósmynd: María Hjálmarsdóttir.