„Alltaf haft þessa hugmynd að ég ætlaði að verða leikkona“
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 27. júl 2018 17:31 • Uppfært 27. júl 2018 17:32
Norðfirðingurinn Katrín Halldóra Sigurðardóttir segir hafa stefnt að því frá barnsaldri að verða leikkona. Katrín sýktist af leiklistarbakteríunni í Þjóðleikhúsinu þar sem móðir hennar starfaði.
„Í gegnum hana fékk ég að fara bæði á sýningar fyrir börn og fullorðna. Það eru ekki allir sem fara með krakka að sjá Rent þar sem heróínfíklar eru að sprauta sig og deyja.
Síðan kom ég heim og lék þetta með frændsystkinum mínum. Þóra lék Helga Björns sem var að gráta yfir Nínu sem dó úr of stórum skammti. Þetta voru hádramatískar sýningar í jólaboðunum,“ rifjar Katrín upp í samtali í hlaðvarpinu Norðfirðingi, sem sent er út í sumar í samtali við Síldarvinnsluna og Austurfrétt.
Katrín Halldóra, sem vakið hefur athygli í íslenskri leiklist fyrir túlkun sína á Ellý Vilhjálms í Borgarleikhúsinu, fluttist tíu ára gömul austur í Neskaupstað þegar faðir hennar var skipaður prestur þar.
„Hann þurfti að eiga tölvu til að skrifa predikanir en ég notaði hana til að skrifa sögur og ljóð. Ég er verðlaunaskáld, ég fór til Bessastaða því ég skrifaði hádramatískt ljóð um lambið og lífið,“ segir hún.
„Ég hef alltaf haft þessa hugmynd að ætla að verða leikkona. Það hefur aldrei komist annað að nema á smá tímabili í tíunda bekk friðaði ég pabba með að segjast ætla að verða læknir. Ég ólst upp við að horfa á fólk leika þannig ég hugsaði með mér að þetta væri alveg jafn mikil vinna og hver önnur.“
Katrín var fyrstu veturna sína á Norðfirði í skóla á Kirkjumel þar sem hún segir að ríkt hafi mikið frelsi. „Bobba og Brynja voru með okkur, ég hef oft hugsað um hvað þær voru skemmtilegir kennarar. Ég hafði kennara sem leyfðu mér að skapa.“
Katrín lauk prófi frá Verkmenntaskólanum áður en hún hélt suður til að láta leiklistardrauminn rætast. Hún var í skólanum þegar leikfélagi var komið á fót í honum. „Við fórum í leiðangur um bæinn til að safna búningum. Við klæddum okkur í búninga og keyrðum um bæinn. Allir bæjarbúar gáfu eitthvað og allt í einu varð geymslan í kjallaranum í skólanum full af drasli.“