„Austfirðingar eru gríðarlega öflugir og sýna mikinn samtakamátt"

Dansað verður á þremur stöðum á Austurlandi á morgun fimmtudag, undir merkjunum Milljarður rís, sem er alþjóðleg dansbylting UN Women gegn kynbundnu ofbeldi.


Þetta er í sjöunda skipti sem viðburðurinn er haldinn hérlendis. Dansað verður á tíu stöðum á landinu í ár og þar af í Herðubreið á Seyðisfirði, íþróttahúsinu í Neskaupstað og íþróttahúsinu á Egilsstöðum. Allir viðburðirnir hefjast klukkan 12:15.


„Austfirðingar eru gríðarlega öflugir og sýna mikinn samtakamátt,“ segir Marta Goðadóttir, herferða- og kynningarstýra UN Women á Íslandi.

„Það er óhugguleg staðreynd að ein af hverjum þrem konum um heim allanverður fyrir kynbundnu ofbeldi einhvern tímann á lífsleiðinni, en það er um ein milljón kvenna. Við mjökumst þó hægt í rétta átt og það verður ljósara með hverju árinu sem líður að ofbeldi í garð kvenna verður ekki lengur liðið.
Íslensk landsnefnd UN Women fagnar 30 ára afmæli í ár og því er ærin ástæða til að mæta og dansa með okkur. Við hvetjum fólk til að mæta með
FO-húfurnar sínar, nýjar sem gamlar,“ segir Marta og minnir dansara á að merkja myndir frá viðburðinum með myllumerkjunum #milljarðurrís og #fokkofbeldi.

Umræðan er sem betur fer að opnast

Það er ungmennaráð Fljótsdalshéraðs sem stendur fyrir viðburðinum á Egilsstöðum. Erla Jónsdóttir er formaður ráðsins. Af hverju þykir ráðinu mikilvægt að taka þátt í byltingunni?

„Það er mikil þörf á umræðu um kynbundið ofbeldi og það skiptir ungmennaráð miklu máli að allir fái sömu tækifæri. Um leið og þetta berst í tal hafa allir eitthvað og segja og eru sammála um að það er mjög mikilvægt að berjast fyrir jöfnum réttindum. Umræðan er sem betur fer að opnast og línurnar að skýrast með það að ofbeldi gegn konum sé ekki í boði. Við viljum hvetja alla til þess að mæta og við vonumst til þess að sjá fjölbreyttan hóp koma saman, fylla íþróttahúðið og dansa saman.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.