Bílskúrspartý á Norðfirði á þriðjudögum í sumar

„Það marg sannað að tónlist, hvort sem er um lifandi flutning að ræða eða í öðru formi, hefur jákvæð áhrif á sálarlíf fólks,” segir Arnar Guðmundsson á Norðfirði sem farinn er að undirbúa tónleikaröðina V-5 bílskúrspartý sem verður við heimili hans í sumar.

 


Þetta er þriðja sumarið sem tónleikaröðin verður haldin. „Upphaflega hugmyndin kviknaði á vormánuðum 2017 og var sú að bjóða ferðafólki upp á ókeypis viðburði og kynna Neskaupstað um leið sem ferðamannabæ gegnum hugtakið „Meet the Locals“. Einnig að veita austfirskum upprennandi tónlistarmönnum og hljómsveitum tækifæri til að spila opinberlega. Þess vegna ákváðum við að láta tónleikana fara fram í bílskúr og undirstrika þannig að þetta væri fyrst og fremst hugsað fyrir bílskúrsbönd og myndin sem gestir fengju væri sú að verið væri að opna inn á bílskúrsæfingu hjá hljómsveitunum,” segir segir Arnar sem stendur ásamt fjölskyldu sinni að þessari sérstæðu tónleikaröð við heimili þeirra í Valsmýri 5.


Tónlist hefur jákvæð áhrif á sálarlíf fólks
Fyrsta sumarið gekk það vel að ákvörðun var tekin um að taka næstu skref. „Bæði stefndi í einsleita tónleikaröð þar sem framboð bílskúrsbanda á svæðinu er ekki óþrjótandi. Hugmyndin er enn í fullu gildi en í fyrra bættum við fleiri listamönnum við, eins og Prins Póló og Austurvígstöðvunum.
Fólk hefur lagt leið sína í Valsmýri 5 hvaðanæva að af Austurlandi og erlendir ferðamenn sem eru á ferð um næsta nágrenni hafa heldur ekki látið sig vanta. Tónleikarnir hafa vakið mikla athygli og eru orðinn fastur liður í menningarlífi Austfirðinga. Það sem gerir þetta sérstakt er að allir tónleikarnir eru haldnir hér á bílaplaninu og allt tónlistarfólk gefur vinnu sína, þannig að kostnaður er lítill og aðgangur ókeypis,” segir Arnar.


Sumarið verður skemmtilegt
Í ár munu DDT-pönkviðburðir sjá um alla vinnu við að bóka listafólkið og uppsetningu á viðburðunum sem hingað til hefur verið í höndum bóndans að Valsmýri 5 og hans fylgdarliði. 

„Sumarið verður skemmtilegt því margar af fremstu hljómsveitum og listafólki sem Austurlandi tengjast hafa boðað komu sína í bílskúrinn. Þeir sem hafa nú þegar staðfest komu sína eru; G-org og Masee, Haraldur Þór Guðmundsson, Gauragangur, Sárasótt, Vinny Vamos, DDT skordýraeitur ásamt fleirum.

Fyrstu tónleikarnir verða þriðjudaginn 4. júní og verður það okkar ástsæli júróvisjónfari Einar Ágúst Víðisson sem mun opna sumarið að þessu sinni. Þriðjudaginn 11. júní munu strákarnir í DDT skordýraeitri kynna væntalega LP plötu sína. Stöðfirsku feðgarnir Garðar Harðar og Hilmar Garðarsson munu spila þriðjudaginn 18. júní auk þess em Norðfirðingurinn Haraldur Þór Guðmundsson mun vera með tónlistargjörning,” segir Arnar.

Ljósmynd: Þórfríður Soffía Þórarinsdóttir

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.