„Bjóst ekki við að selja fyrir svona mikið“
Árný Birna Eysteinsdóttir, tíu ára, afhenti í síðustu viku Krabbameinsfélagi Austurlands hátt í 150 þúsund krónur sem hún safnaði til styrktar félaginu með að selja muni sem hún hafði perlað.Árný Birna seldi munina í anddyri Nettó á Egilsstöðum og var þar alls í átta tíma yfir helgi. Við það safnaði hún 146.421 krónu sem hún afhenti félaginu.
„Ég fékk fínar viðtökur. Ég bjóst kannski ekki við að geta selt fyrir alveg svona mikinn pening,“ segir Árný Birna.
Hún segir hugmyndina hafa kviknað bæði því eldri bróðir hennar hafi fyrir nokkrum árum selt muni til styrktar Krabbameinsfélaginu. Auk þess hafi margir ættingjar hennar glímt við krabbamein.
Árný Birna perlaði sjálf gripina sem hún seldi. „Mér finnst mjög gaman að perla. Yfirleitt perla ég bara það fyrsta sem kemur upp í hugann.“