
„Eftir kynninguna á tölvuleikjagerð var ég seldur nánast umsvifalaust“
„Þeir sem þekkja mig ættu að vita þá hafa tölvuleikir alltaf verið eitthvað sem ég hef haft mikinn áhuga á og hafa þeir verið mín aðalafþreying árum saman,“ segir Héraðsbúinn Daníel Pétursson sem stundar nám í tölvuleikjahönnun við norska háskólann Nord og vann nýlega til verðlauna um leik ársins á norsku leikjaverðlaunahátíðinni Norwegian Game Awards.
Síðastliðin ár hefur fjöldi Íslendinga farið til Noregs til að læra ýmsa myndmiðlun en í skólanum eru einnig aðrir nemendur að austan. Daníel hélt utan eftir útskrift úr Menntaskólanum á Egilsstöðum árið 2016.
Ég hef eytt óheilbrigt miklum tíma bæði í að spila tölvuleiki og að kynna mér hvað ýmsir tölvuleikjaframleiðendur eru að gera til þess að koma sér á kortið, eða halda sér á því eftir að hafa búið til leik sem hefur slegið í gegn.“
Heillaðist af náminu eftir kynningu
Nord Universitet hélt kynningu í Menntaskólanum á Egilsstöðum meðan Daníel var þar við nám.
„Þegar ég var á síðasta ári í menntaskóla fór ég að kanna hvaða háskólanám myndi henta mér best og kom ýmislegt til greina. Mest freistandi þótti mér tölvunarfræðin en hún greip mig aldrei að fullu þar sem ég hef alltaf verið meira fyrir list af ýmsu tagi. Eftir kynninguna á tölvuleikjagerð var ég seldur nánast umsvifalaust. Aðalástæða þess að ég ákvað að fara í þennan skóla er sú að það er í rauninni fátt, ef eitthvað, á Íslandi sem líkist þessu námi. Það er einnig ástæða þess hve margir Íslendingar eru í skólanum,“ segir Daníel, spurður að því hvers vegna hann valdi þessa leið.
Leikirnir áttu að betrumbæta heiminn
Daníel vann verðlaunin fyrir leikinn Field Hospital en auk hans voru þrír aðrir Íslendingar í hópnum og ein norsk kona.
„Leikurinn var „Gamelab“ verkefni okkar haustið 2017 og var upprunalega gerður í þeim tilgangi að draga athygli að þeim slæmu aðstæðum sem margir læknar í mörgum þriðja heims löndum þurfa að vinna við. Ástæðan fyrir því var sú að leikjaþema annarinnar átti að snúa að því að senda eins konar skilaboð og reyna þar með að betrumbæta heiminn.“
Mælir eindregið með skólanum
Daníel útskrifast úr náminu vorið 2019. „Að útskrift lokinni eru tveir valmöguleikar sem að heilla mig mest. Annars vegar get ég stofnað fyrirtæki með vel völdum aðilum með það að markmiði að finna okkar eigin leið á kortið með því að framleiða leiki. Hins vegar get ég sótt um vinnu hjá ýmsum tölvuleikjaframleiðendum víðast hvar um heim. Í Svíþjóð er fjöldinn allur af frægum tölvuleikjaframleiðendum, þannig að maður þarf ekki að fara langt til að starfa í iðnaðinum.
Ég mæli eindregið með þessu námi fyrir áhugafólk um tölvuleiki, forritun, list og fleira því tengdu. Það gefur manni frelsi til að koma hugmyndum sínum á framfæri og sjá þær verða að veruleika, sem er allavega stór hluti af upplifuninni fyrir mig. Fyrir aðra sem ekki hafa áhuga á tölvuleikjum, þá býður skólinn einnig upp á nám í öllu á milli himins og jarðar.“