„Ég er viss um að Skúli fylgist með öllu saman“

Leiðsögumaðurinn og lífskúnstnerinn Skúli Sveinsson frá Borgarfirði eystri lést snögglega og langt fyrir aldur fram síðastliðinn vetur. Bróðir hans, Karl, ákvað að halda minningu Skúla á lofti með því að taka að sér þær ferðir sem bókaðar höfðu verið á hann í sumar á sérmerktum vagni með yfirskriftinni „Nú trússa vinir Skúla“.


Skúli hafði starfað sem leiðsögumaður um Loðmundarfjörð og Víkur í rúm 20 ár og var afar vinsæll sem slíkur. „Þetta byrjaði nú allt sumarið 1994 með því að Ína Gísladóttir frá Norðfirði hóf skipulagðar gönguferðir um Víkur og Loðmundarfjörð ásamt fleirum. Þetta var áður en farið var að stika leiðirnar að einhverju ráði. Ég tók að mér að trússa í þessu fyrstu ferðum en á þeim tíma átti ég nokkuð öflugan pikkupp. Fljótlega tók Skúli við hlutverkinu sem vatt svo upp á sig og sá hann nánast um allt trúss á svæðinu allar götur síðan, jafnhliða því að vera hreindýraleiðsögumaður frá miðjum júlí ár hvert,“ segir Karl.

Myndin lýsir Skúla vel
Myndina á vagninum tók Gréta S. Guðjónsdóttir, ljósmyndari og leiðsögumaður af Skúla í fyrrasumar við gistiskálann í Loðmundarfirði þar sem hann var öllum hnútum kunnugur.

„Þegar bróðir minn dó í vetur stóðum við frammi fyrir því að þurfa að ákveða hvað við vildum gera varðandi ferðirnar sem búið var að bóka á hann í sumar en auk þess rak hann gistiheimili í tveimur húsum í bænum. Ég ákvað að taka þessi verkefni að mér eftir að nokkrir aðilar höfðu boðið fram hjálparhönd við verkefnið, í það minnsta þetta árið.

Skúli kvaddi svo snögglega, eða öllu heldur fékk hann engan tíma til þess að kveðja eða ráðstafa nokkrum hlut og mér fannst okkur bera skylda til að halda þessu áfram nokkurn veginn eins og það var, að öðru leyti en því að hann vantaði sjálfan. Myndin er liður í því að hafa hann áfram með okkur í ferðunum og ég finn að hinum leiðsögumönnunum og skálavörðunum þykir voðalega vænt um að hafa hann þarna skælbrosandi á kerrunni. Þetta er alveg dásamleg mynd, ein sú besta sem til er af honum og lýsir honum vel. Ég er viss um að Skúli fylgist með öllu saman, ég vil í það minnsta trúa því, hvort sem það er rétt eða ekki, að menn hafi eitthvað líf eftir þessa jarðvist hér. Við gerum allavega okkar besta til þess að heiðra hann og halda minningu hans á lofti.“

„Hann var sérstakur persónuleiki“
Skúli var einnig virkur í starfseminni með félögum sínum í Fjarðaborg og er hans sárt saknað þar. „Það finna allir fyrir því að hann vantar, við misstum mikið. Hann var sérstakur persónuleiki og það er ekki hægt að fylla hans skarð – þó maður reyni þá tekst það ekki,“ segir Karl.

Ljósmynd: Andrés Skúlason. 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.