„Ég veit ekki hvernig þetta gat gerst“

„Við ákváðum að prófa að setja auglýsingu á Facebook og biðja vini okkar í Danmörku að deila henni. Ég bjóst í mesta lagi við 200 deilingum, alls ekki þessu,“ segir María Hjálmarsdóttir sem hefur ekki undan við að fara yfir umsóknir eftir að hún og maðurinn hennar óskuðu eftir aupair. Auglýsingunni hefur nú verið deilt yfir 7000 sinnum og í morgun voru þau hjónin í viðtali á dönsku útvarpsstöðinni DR P4 vegna málsins.


María og maður hennar, Jesper Sand Poulsen, eru búsett á Eskifirði og eiga sex ára gamla tvíbura. Þau hafa verið með tvær aupair-stúlkur, nú síðast Signe Hansen, sem hefur verið hjá fjölskyldunni síðan í apríl en hún fer á morgun.

„Við erum semsagt að leita að nýrri aupair. Við höfum verið hjá stórum samtökum, Aupairworld, þar sem við fundum hinar báðar. Þar eru hins vegar fáar danskar stelpur á þessum árstíma, en þar sem Jasper er frá Danmörku viljum við dönskumælandi manneskju til að viðhalda dönskunni hjá krökkunum,“ segir María.

„Leitin gekk afar illa og Signe er að fara. Ég prófaði því að setja auglýsingu á Facebook og bað vini okkar í Danmörku að deila henni. Ég hugsaði svo ekkert meira út í það en það fór svo bara að rigna yfir okkur umsóknum daginn eftir. Fyrst áttuðum við okkur á því að auglýsingunni hefði verið deilt 1000 sinnum, svo 1200 sinnum, þá 1600 sinnum og nú hefur hún fengið yfir 7000 deilingar. Þetta er alveg rosalegt og ég veit ekki hvernig þetta gat gerst, kannski hefur auglýsingin lent inn á einhverri stóra grúppu í Danmörku.“

Í viðtali hjá danskri útvarpsstöð
María og Jesper fór í viðtal hjá dönsku útvarpsstöðinni P4 í morgun. „Stöðin hafði samband og vildi fá okkur í viðtal, bæði vegna þessa og einnig til þess að forvitnast um hvað Jesper er að gera á Íslandi og mismuninn á milli lítilla samfélaga á Íslandi og í Danmörku,“ segir María en en útvarpsstöðin er mjög stór og hefur um tvær milljónir hlustenda, þannig að búast má við að umsóknirnar haldi áfram að streyma inn.

María og Jesper hafa fengið um 60 umsóknir og þar af voru 30 sem voru mjög álitlegar. „Við höfum ekki undan að flokka og prenta út. Við höfum samt skorið niður og nú standa eftir tíu,“ segir María en umsóknirnar hafa verið fjölbreyttar.

„Það spilar örugglega inní þennan mikla áhuga að Ísland er eftirsóknarvert land til að koma til. Við pössuðum okkur þó á því að taka vel fram að við myndum búa á litlum stað á Austurlandi til þess að passa allar umfram væntingar. Við höfum áður fengið umsóknir þar sem fólk verður skúffað yfir því hversu langt frá Reykjavík við búum, en allir umsækendur gera sér grein fyrir stöðu mála núna og eru til í ný ævintýri,“ segir María sem vill taka það fram að þó svo að þau auglýsi með þessum hætti þá fari þau eftir öllum lögum og reglum varðandi kerfið og samninga.

Börnin nú altalandi á dönsku
María segir það ómetanlegt fyrir alla að prófa þessa leið, bæði til að létta undir á heimilinu og einnig til að víkka sjóndeildarhringinn. „Þetta er gott fyrir alla, börnin, fjölskylduna og þann sem kemur inn á heimilið. Það er mikill lærdómur að fá einhvern utanaðkomandi inn á heimilið sem er partur af fjölskyldunni í einhvern tíma, það eru dýrmæt tengsl inn í framtíðina. Einnig fyrir börnin að sjá að heimurinn er stærri en staðurinn sem þau búa á.

Fyrir okkur er þetta sérstaklega mikilvægt þar sem krakkarnir eru tvítyngd og þau kunnu ekki mikið í dönsku og gátu ekki talað við ömmu sína og afa í Danmörku. Þetta var því algert lykilatriði fyrir okkur og nú eru þau altalandi á dönsku. Fólk þarf ekki að vera hrætt við að börnin skilji ekki annað tungumál, en þau eru svo fljót að læta og nota bara táknmál fram að því. Ég myndi segja að þetta væri ótrúlega gott tækifæri fyrir alla og ég mæli hiklaust með þessu.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.