„Ein ósk er ekki nóg fyrir mig“

„Fólk er ótrúlega ánægt og þakklátt og við höfum fengið rosalega góðar viðtökur,“ segir Hákon Hildibrand, en Hildibrand Hótel hefur nú opnað bakarí í gamla kaupfélagshúsinu í samstarfi við Sesam brauðhús á Reyðarfirði. Hákon er í yfirheyrslu vikunnar.


„Þegar við breyttum neðstu hæðinni á Hildibrand í fyrra var gert ráð fyrir bakaríshorni. Það er hins vegar ekki hægt að gera allt í einu og því hefur dregist að við opnum. Hreyfing komst á málið í lok sumars þegar við náðum samstarfi við Sesam brauðhús á Reyðarfirði. Upphaflega hugmyndin var að við myndum baka sjálf en áttuðum okkur á því að það yrði of mikið álag. Fyrst við höfum svona flott bakarí í heimabyggð þá var ekki spurning um að efla frekar þann rekstur. Svo eru báðir bakaranir í Sesam Norðfirðingar svo heimamönnum finnst þeir eiga töluvert í þeim,“ segir Hákon.

Bakarí bæjarins lengst af í húsinu
Hákon segir að heimamenn séu hæstánægðir með viðbótina. „Við heyrum að bakarí sé eitt af því sem fólk hefur saknað mest að hafa ekki í bænum, enda var alltaf bakarí hér áður og margir sem birgja sig upp af brauðum þegar þeir eiga leið um Reyðarfjörð. Ég veit heldur ekki betur en að Neskaupstaður sé eini bærinn af þessari stærðagráðu á íslandi þar sem ekki er starfrækt bakarí. Auk þess finnst okkur gaman að það sé komið aftur brauð í kaupfélagshúsið sögunnar vegna, en lengi vel var bakarí bæjarins starfrækt hér í húsinu.“

Bakaríið vonandi komið til að vera
Hákon segir markmiðið vera að bjóða upp á gæðavörur og gott úrval af nýbökuðum afurðum sex daga vikunar. „Við svo sannarlega vonum það og trúum að heimamenn verði duglegir að nota þjónustuna og tryggja grundvöll þess að hér megi verða bakarí um ókomin ár. Einnig erum við spennt að sjá næsta sumar hvort þetta slái ekki í geng hjá ferðamönnunum líka.“


Fullt nafn: Hákon Guðröðarson, oft kallaður Hákon Hildibrand.

Aldur: Bráðum 31 árs.

Starf: Framtaksmaður.

Maki: Hafsteinn Hafsteinsson, listamaður.

Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú varst yngri? Ég ætlaði alltaf að verða fornleifafræðingur og finna týnda muni og selja antík. Hef alltaf verið mjög gömul sál. Svo fór ég á kynningu í háskólanum og fannst þeir sem voru að læra fornleifafræði svo líflausir og leiðinlegir, svo ég snar-hætti við. Nú safna ég bara antíki í staðinn.

Ef þú ættir eina ósk? Ein ósk er ekki nóg fyrir mig, það yrði alltof mikil siðferðisklemma að ákveða hvort hún eigi að vera sjálfselsk eða heimsbætandi. Nema að ég mætti óska mér að allar mínar óskir yrðu uppfylltar.

Hvert er uppáhalds lagið þitt? Happy með c2c er það lag sem getur alltaf komið mér í gírinn og fengið mig til að dansa eins og brjálæðingur.

Hver er þín helsta fyrirmynd? Ef ég er í sérstökum vandræðum þá bið ég stundum, ekki til Guðs heldur til Guðröðars langafa míns og til Ragnhildar í Fannardal. Þau eru bæði þjóðsagnakarakterar á Norðfirði og lifa í sögum fólks fyrir manngæsku sína og þess sem þau lögðu til samfélgsins.

Hvað er rómantík? Spurðu mig frekar um ástina ég hef margt gott um hana að segja, rómantík er eitthvað markaðshugtak.

Ef þú gætir breytt einhverju í heiminum? Ef ég mætti ráða þá myndi ég vilja sjá heim þar sem við hlúum að jörðinni okkar og hættum að eyðileggja hana.

Hvaða kost í fari einstaklinga kannt þú helst að meta? Húmor.

Hver er þinn helsti kostur? Hreinskilni.

Hver er þinn helsti ókostur? Hreinskilni.

Draumastaður í heiminum? Einhvestaðar þar sem er hvít strönd, sól, kokteill í hönd, góður vinur á næsta bekk og hommabar í göngufjarlægð.

Hvað finnst þér skemmtilegast að gera? Mér finnst fátt skemmtilegra en að verja kvöldi með góðum vinum, hlægja saman, borða góðan mat og taka almennilegt trúnó.

Topp þrjú á þínum „bucket list“?
1. Giftast loksins Hafsteini mínum.
2. Eignast einhvernvegin börn.
3. Eyða nokkrum mánuðum í Asíu.

Syngur þú í sturtu? Nei, ég er svo morgunfúll og söngur er mér ekki efst í huga á þeirri stund.

Hvernig er týpískur dagur hjá þér? Það er ekkert til sem heitir týpískur dagur í mínu lífi. Ég vinn nánast alla daga og sú vinna er mjög fjölbreytt.

Ef þú þyrftir að eyða 100 þúsund kalli á klukkutíma, í hvaða verslun færirðu? BHV -Bazaar de l'Hotel de Ville í París. Ekkert mál að eyða 100 þúsund kallinum þar á korteri, svo getur maður slappað af og drukkið kaffi hinar 45 mínutunar.

Hvað ættu allir að prófa að minnsta kosti einu sinni í lífinu? Að stíga langt út fyrir þægindaramman og byrja uppá nýtt.

Hver er tilgangurinn með þessu jarðlífi? Það er enginn tilgangur með tilvist okkar. Við mannfólkið erum plága á þessari jörð, það er okkar sem einstaklinga að skapa okkur einhvern tilgang, gera eitthvað sem skilur við staðinn okkar eða samfélagið betra en við komum að því.

Ertu hjátrúarfullur? Að einhverju leyti. Mér er til dæmis meinilla við þegar fólk kveikir á sígarettum með kertum.

Hvað er það besta við Austurland? Það er fleiri tímar í sólahringnum á Austurlandi miðað við annarstaðar þar sem ég hef búið.

Hvað var í tísku þegar þú varst yngri en er það ekki lengur? Að gera dyra- og símaat.

Hvert er þitt mesta afrek hingað til? Ég myndi segja að það sé að hafa fundið ástina og Hafsteinn minn og það samband sem við höfum átt saman síðustu átta árin. Einnig hefur hann kennt mér einhvern vott af þolinmæði, sem er afrek útaf fyrir sig þar sem ég gjörsneiddur af henni.

Ef þú mættir bjóða einhverjum fimm einstaklingum í mat, lifandi eða látnum, hverjir væru það? Ég myndi klæða mig í mitt besta drag og halda ógleymanlegt dívuboð á listanum væru:

Joan Rivers, svo það verði mikið af svörtum húmor.
RuPaul, svo það verði glamúr
Jessica Lange, svo það verði drama
Jula Child, svo það verði gott að borða
Melissa Mccarthy. svo það verði skemmtilegt.



Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.