
„Er háð því að hitta fyrir Atlantshafið mitt ólma“
Sköpunarmiðstöðin á Stöðvarfirði er handhafi Landstólpans 2018, samfélagsviðurkenningu Byggðastofunnar. Una Sigurðardóttir, verkefnastjóri hjá Sköpunarmiðstöðinni er í yfirheyrslu vikunnar.
Una veitti viðurkenningunni viðtöku, ásamt þeim Rósu Valtingojer og Vinny Vamos, á ársfundi Byggðastofnunar síðastliðinn miðvikudag.
Landstólpinn, samfélagsviðurkenning Byggðastofnunar, hefur verið veitt á ársfundi stofnunarinnar síðan 2011. Á heimasíðu Byggðastofnunar segir að viðurkenningin sé hvatning og einskonar bjartsýnisverðlaun. Samfélagsviðurkenningin er veitt þvert á málaflokka og getur náð til einstaklinga, fyrirtækja eða hópa, fyrir eitthvað verkefni eða starfsemi sem hefur vakið athygli á byggðamálum, landsbyggðinni í heild, eða einhverju tilteknu byggðarlagi og þannig aukið veg viðkomandi samfélags.
Hvaða þýðingu hefur viðurkenningin fyrir Sköpunarmiðstöðina? „Þetta skiptir miklu máli, að þekking og skilningur hafi skapast innan stjórnsýslunar á mikilvægi Sköpunarmiðstöðvarinnar og því frábæra framtaki sem hún er. Það er góður grunnur að samtali og vonandi öflugu samstarfi,“ segir Una.
Hvað er helst á baugi í Sköpunarmiðstöðinni í dag? „Við erum á góðri siglingu með smíðar á hljóðverinu Stúdíó Síló og erum ef til vill komin í skemmtilegasta kaflan við smíðarnar og það hyllir undir verklok. Þessa dagana erum við að velja textíl sem strengdur verður á hljóðgildurnar sem þekja alla veggi, svo við erum að velja liti og áferð sem er mjög gaman og setur tóninn fyrir loka „lúkkið“ á verinu.
Ég og hún Rósa mín einnig á fullu að móta „Íslensku leirfuglana“, en sumarvertíðin er að hefjast og eins gott að hafa góðan lager fyrir hana. Svo er það bara þetta daglega stúss sem hlýst af því að sjá um jafn stórt heimili og Sköpunarmiðstöðin er, en við erum með sjö listamenn hjá okkur að jafnaði í hverjum mánuði og oft í ýmsu að snúast í kringum það og annað sem viðkemur rekstinum.“
Hvernig sér Una Sköpunarmiðstöðina fyrir sér eftir 20 ár? „Ég sé fyrir mér að ef úr rætist þá verði komið nýtt þak og það sem við höfum planað í teikningum, en er enn lokið, verið orðið að veruleika. Þá er full ástæða til að ætla að hér verði fjölbreitt og skapandi atvinnustarfsemi þónokkurra smáfyrirtækja undir nýja þakinu, enn fleira lista- og tónlistarfólk dvelji hjá okkur, auk þess sem við munum reka öfluga þjónustu við menntastofnanir og almenning í formi námskeiða og skólabúða. En annars er lífið er svo lygilegt að ég tel mig skorta skáldskapargáfu til að spinna eitthvað af viti svona langt.“
Fullt nafn: Una Sigurðardóttir.
Aldur: 35 ára.
Starf: Listakona og verkefnastjóri Sköpunarmiðstöðvarinnar.
Maki: Vinny.
Börn: Tumi, hundurinn okkar.
Hvað ætti ævisagan þín að heita? Ævi og ástir Unu á Þrastarhól.
Hvaða bíómynd hefurðu séð oftast? Ég verð að segja pass við þessari, en ég hef lesið Sölku Völku nokkurum sinnum í gegnum tíðina.
Hvert er uppáhalds lagið þitt? Lambada eða Chorando Sei Foi með Kaoma hefur staðið hjarta mínu nærri síðan 1989. Söngur sálarinnar svei mér þá.
Vínill eða geisladiskur? Vínill.
Mesta undur veraldar? Lífið og dauðinn og hringrás alls.
Hver er þinn helsti kostur? Ég er léttlynd og mjög hrein og bein að upplagi. Svo er mér sagt að ég sé fyndin.
Hver er uppáhaldsstaðurinn þinn á Austurlandi? Mér finnst bara ótrúlega gott að vera heima hjá mér á Þrastarhóli, elska það hús og heimili. En svo er ég er mikill haf- og fjöruaðdáandi og er háð því að hitta fyrir Atlantshafið mitt ólma. Það eru svo fallegar strendur hér allt um kring og allar hafa þær sinn galdur.
Hver er þinn helsti ókostur? Hreina og beina elimentið getur verið of beinskeitt, en maður verður að vandar sig og ég er að vinna í tamningu á þeim hesti. Svo er ég stundum hrikalega óþolinmóð og kappsfull og keyri allt í botn og af því hef ég viðurnefni mitt Drífa Sig. Í því trippi er ég líka að vinna.
Hvernig er týpískur dagur hjá þér? Fasti í mínum degi er að ég er mætt niðrí Sköpunarmiðstöð klukkan átta alla virka morgna og drekk þar minn fyrsta kaffibollan með Rósu og Vinny og þeim sjálfboðaliðum sem dvelja hjá okkur. Svo getur allt mögulegt verið á dagskránni þann daginn, t.d steypuviðgerðir, bókhald, þrif, smíðar eða mótunarvinna á keramikverkstæðinu. Þetta er mjög tímabilaskipt hjá okkur og fer eftir því hvaða framkvæmdir eru í gangi hverju sinni og svo er það alltaf utanumhald á reksturinum og umsjón með listamannadvölinni. Dagarnir enda yfileitt á því að við reynum að hætta í vinnunni ekki seinna en fimm, sem gengur misvel, og þá förum ég og Vinny í labbitúr með hundinum okkar Tuma. Það er mjög góð leið til að loka á amstur dagsins, að fara út í náttúruna og eyða einum klukkutíma í það að vera bara til og ræða málin.
Hvaða kost í fari einstaklinga kannt þú helst að meta? Heiðarleiki, hlýja, traust, jákvæðni og svartur húmor. Skotheld blanda.
Hvað er leiðinlegasta húsverkið þitt og af hverju? Það er ekki leiðinlegt að gera neitt, stress og neikvæðni er það eina sem er leiðinlegt og gerir allt leiðinlegt, sama hversu skemmtilegt það nú annars gæti verið.
Draumastaður í heiminum? Í vatni, laug eða sjó.
Hver er þín helsta fyrirmynd? Ég á mér ekki eina fyrirmynd, en ég tek eftir fallegum og aðdáunaverðum eiginleikum í fari þeirra sem eru í kringum mig og reyni að rækta þá kosti í mínum eigin garði.
Tæknibúnaður? Gítarinn minn.
Topp þrjú á þínum „Bucket list“? Ég er ekki með svoleiðis lista.
Hvað ættu allir að prófa að minnsta kosti einu sinni í lífinu? Ég er mjög hrifin af sánum og böðum. Fyrir þá sem eru svipað sinnaðir þá væri það að heimsækja japanskt baðhús, finnska sánu eða íslenska náttúrulaug.
Hvað er í töskunni þinni/vösunum? Skipulagsbók, penna, lykla, málband, dömubindi, veski, torkbitasett, varalitu, leatherman, ipad, hárteygju, síma, rafrettu og veipdjús.