„Fæstir vissu um hvað ég var að tala“

„Ég sat með fólki á veitingastað á dögunum sem er uppalið hér fyrir sunnan og við vorum að ræða hitt og þetta. Ég sagði orðin „eldhúsbekkur“ og „bekkjartuska“ í einhverri setningunni og fólkið bara hváði,“ segir Petra Sif Sigmarsdóttir, frá Reyðarfirði, en hún skrifaði um þessa upplifun sína á Facebook-síðu sinni og uppskar mikil viðbrögð.


Petra er fædd og uppalin á Reyðarfirði og bjó þar til tvítugs þegar hún hélt til höfuðborgarinnar í háskólanám. Þar hefur hún búið síðan, eða undanfarin 17 ár. Eftir ferðina á veitingahúsið spurði Petra vinnufélaga sína út í sömu orð.

„Fæstir vissu um hvað ég var að tala og höfðu ekki heyrt orðin áður. Ég varð svo ótrúlega hissa því fyrir mér eru þessi orð jafn eðlileg eins og að tala um hús og bíl. Flestir sem ég spurði sögðust nota orðið borð eða eldhúsborð í staðinn fyrir eldhúsbekkur og borðtuska í stað bekkjartuska.

Ég setti svo færslu um málið á Facebook-síðu mína sem fékk mikil viðbrögð, sérstaklega frá fólki sem er alið upp fyrir austan, hefur einhverntíman búið þar eða er í sambúð með Austfirðingum sem þekkja orðin. Fleiri sögðust þó nota orðið eldhúsbekkur heldur en bekkjartuska af þeim sem komu með athugasemd við stöðufærsluna.

Öll mín stórfjölskylda er þó að mestu leyti enn fyrir austan þannig að ég hef mikil tengsl þangað og fer mikið austur. Eftir að ég flutti suður hef ég nokkrum sinnum lent í því að nota orð sem höfuðborgarbúar hafa aldrei nokkurn tímann heyrt. Fyrst eftir að ég flutti suður og fór að vinna við umönnun notaði ég orðið brók óspart. Það féll ekki í góðan jarðveg og var ég fljót að losa mig við það og nota nærbuxur í staðinn. Fólk hefur spurt mig hvort ég sé níræð þegar ég tala um sterka mola, hér talar fólk um sterkan brjóstsykur,“ segir Petra og hlær.

Aldrei heyrt orðið bekkjartuska
Austurfrétt leitaði álits hjá textahöfundinum Braga Valdimar Skúlasyni, sem er einna þekktastur fyrir að vera umsjónarmaður sjónvarpsþáttarins Orðbragðs.

„Eldhúsbekkur er ekki orð sem notað er hér á höfuðborgarsvæðinu. Sjálfur er ég að vestan og þar er talað um eldhúsborð, bæði fyrir svæðið í kringum eldavélina og borðið sem borðað er við. Þegar ég hugsa út í það er það ansi fátæklegt og það skapar viss vandræði þegar maður er beðinn um að leggja eitthvað á eldhúsboðið.

Varðandi orðið eldhúsbekkur, þá tel ég að uppruni þess vísi til trébekksins sem fólk sat á við eldhúsborðið, en slíkir eru sjaldséðir í eldhúsum í dag. Það vantar kannski bara orð yfir það sem þið fyrir austan kallið eldhúsbekk.

Bekkjartuska er hins vegar orð sem ég hef aldrei heyrt fyrr en núna, nema þá kannski yfir þreytulegan nemanda, sem er þá hálfgerð bekkjartuska,“ segir Bragi.

Eru mismunandi mállýskur hverfandi á Íslandi í dag? „Já, bæði mállýskur og öll sérviska. Það þykir mér miður. Mér finnst mætti vera miklu meiri munur milli landshluta því allt svona er svo rosalega skemmtilegt. Fólk á það til að æsast mjög auðveldlega þegar svona nokkuð berst í dag.“

„Ég vil alls ekki að eldhúsbekkurinn hverfi“
Anna Sigríður Þráinsdóttir, málfarsráðunautur á Ríkisútvarpinu, talar sjálf um eldhúsborð, ekki eldhúsbekk.

„Þetta er það sem er svo skemmtilegt, í raun alveg frábært að það skuli vera til þessi tvö orð sem við tökumst svona á um. Ég vil alls ekki að eldhúsbekkurinn hverfi þó svo ég noti hann ekki sjálf, heldur fyrir alla muni að fólk haldi áfram að nota eldhúsbekk. Mér finnst svo mikilvægt að við höldum í þessa fjölbreytni í málinu, sem er því miður að minnka.“

Anna Sigríður tekur undir með Braga Valdimar varðandi bekkjartuskuna. „Ég kannast ekki við það, heldur frekar þá bekkjarrýja eða bekkjardrusla. Bæði hef ég heyrt það á Norðurlandi og Vesturlandi, þá jafnvel bara „drusluna“.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.