Fáir í salnum sem aldrei höfðu farið í andaglas
Forláta borð til að spila andaglas á var meðal þeirra gripa sem sýndir voru á Eiðum um helgina í tilefni þess að 100 ár voru liðin frá því að Alþýðuskólinn var settur í fyrsta sinn. Ýmsar sögur eru til frá fyrrum nemendum skólans af skilaboðum anda sem komu sér fyrir í glösunum.
Borðið kemur úr búi Benedikts Jónassonar sem mun hafa keypt það í Danmörku um aldamótin 1900. Benedikt var sonur Jónasar Eiríkssonar sem var skólastjóri Búnaðarskólans á Eiðum í kringum aldamótin 1900 en sá skóli var starfræktur frá 1883-1917, áður en Alþýðuskólanum var komið á laggirnar.
Borðið er úr mahónívið og með íslenskum stöfum. Jóhann Grétar Einarsson frá Seyðisfirði sýndi það, en hann er fóstursonur Benedikts. Þegar Jóhann sýndi borðið í dagskránni á laugardag lét hann þess getið að þetta væri hið fínasta andaglasborð sem hann hefði séð, yfirleitt hefðu stafirnir bara verið handskrifaðir.
Fyrir þá sem ekki þekkja til er andaglas leikur spilaður með tómu glasi á borði með stöfum á. Trúin er að í gegnum þetta náist samband við framliðna sem stjórni því að hvaða stöfum á borðinu glasið færist og komi þannig dulrænum skilaboðum á framfæri til leikmanna.
Andarnir í glasinu
Ýmsar skrautlegar sögur eru til úr slíkri spilamennsku. Jóhann Grétar rifjaði upp að einhverju sinni hefði andi fornkappans Grettis Ásmundssonar komið í glasið og það endað með því að borðið hefði þeyst út í vegg og brotnað. Öðru sinni hefðu ungir menn sem voru að spila skrifað niður allt sem kom frá andanum í glasinu. Enginn skildi skilaboðin en einn þeirra var ákveðinn og leitaði til læknisins á Seyðisfirði sem taldi líklegast að þarna væri um að ræða skilaboð á frönsku eða latínu.
Bryndís Skúladóttir, formaður Eiðavina, bað þá sem voru í salnum og höfðu aldrei tekið þátt í andaglasi að rétta upp hönd. Afar fáar hendur fóru á loft. „Það prófuðu þetta flestir einu sinn til tvisvar,“ segir hún.
„Maður hefur aldrei vitað almennilega hversu mikið þetta var spilað. Þetta fór laumulega því kennararnir voru á móti því að við spiluðum.
Það var ein saga rifjuð upp um helgina. Hún var hún hóp sem hittist kvöld eftir kvöld heila viku til að spila. Ég spilaði með hópnum í byrjun, en fór út eftir 10-15 mínútur því mér leist ekkert á.
Á hverjum degi voru alltaf nýjar fréttir frá hópnum. Fyrst kom andinn með skilaboð um að það yrði ketilsprenging í heimavistarhúsinu á Útgarði, síðan að einhverjir ættu að slasast og jafnvel deyja. Þeir voru meira að segja nafngreindir.
Þáverandi skólameistari heyrði af þessu og tók þetta það alvarlega að það var haldin sérstök brunaæfing. Sama dag og æfingin var haldin laumaðist hins vegar lítil stelpa inn á skrifstofu skólastjórans og viðurkenndi að hafa verið að prakkarast og ýtt glasinu.“
Umhugað um sögu skólans og Eiða
Eiðavinir eru félagsskapur gamalla nemenda og velunnara Eiða. Aðalfundur samtakanna var haldinn um helgina og þar steig Bryndís til hliðar sem formaður eftir sex ára starf. Við því tekur Örvar Ármannsson frá Stöðvarfirði en með honum í stjórn verða Sigríður Sigurðardóttir, Drífa Þöll Arnardóttir, Lilja Eygerðir Kristjánsdóttir, Ragnhildur Aðalsteinsdóttir, Þóra Björk Nikulásdóttir og Jónína G. Óskarsdóttir.
„Þetta er búið að vera mjög gjöfult og skemmtilegt starf og ég mun sakna margs úr því,“ segir Bryndís en samtökin hafa staðið fyrir nokkrum samkomum á Eiðum auk annarrar starfsemi til að minna á bæði Alþýðuskólann og sögu Eiðastaðar.
Skólahald var í húsnæði Alþýðuskólans fram til ársins 1998. Það hefur verið í einkaeigu síðastliðin 20 ár. Gistiþjónusta hefur verið þar frá sumrinu 2017 og samhliða henni hefur ákveðnu viðhaldi á byggingum skólans verið sinnt. Bryndís segir að þó nokkrar umræður hafi verið um helgina um möguleika og tækifæri á Eiðum.
„Eiðavinir hafa haldið uppi félagslífi, minnt á sögu skólans og merka sögu staðarins. Ég vona að sveitarfélögin taki sig til og veki athygli á staðnum sem var miðpunktur Austurlands árum saman, suðupottur menntunar og menningar. Fyrir unglinga á mörgum stöðum var það nánast náttúrulögmál að fara í Eiða. Skólinn var góður og undirbjó okkur vel fyrir frekara nám.“
Fjöldi fólks lagði leið sína í Eiða til að taka þátt í dagskránni sem stóð frá föstudegi til sunnudags. Bryndís er ánægð með hvernig til tókst. „Það var verulega gaman að sjá þessi hamingjusömu andlit. Við í stjórninni höfum fengið mikið þakklæti en ég segi að við höfum lagt til rammann en hópurinn skreytt inn í hann á sinn eigin hátt og skapað gleðimynd.“