
„Ferðamenn eru æstir í að eignast fugla“
„Við höfum verið í samstarfi við Gunnarsstofnun í mörg ár og síðustu þrjá páska höfum við verið með sérstaka páskasýningu,“ segir Sunneva Hafsteinsdóttir, sem stýrir sýningunni Fuglar sem opnuð verður á Skriðuklaustri á sunnudaginn.
Sýningin verður opnuð á sunnudaginn og stendur milli 14:00 og 17:00 þann dag. Er hún samstarfsverkefni Handverks og hönnunar og Gunnarsstofnunar.
Á sýningunni eru fuglar af fjölbreyttum toga í formi listmuna, handverks, bóka og mynda. Sýnendur eru þau Guðrún Gísladóttir, Smávinir - Lára Gunnarsdóttir, Hafþór Ragnar Þórhallsson, Úlfar Sveinbjörnsson, Oddný Jósefsdóttir, Ágúst Jóhannsson, Margrét Þórarinsdóttir, Rán Flygering/Hjörleifur Hjartarson, Erna Jónsdóttir og Stöðfirðingurinn Rósa Valtingojer.
Vorboðinn ljúfi
„Að þessu sinni ákváðum við að leggja áherslu á fulgana og vorið. Við völdum fugla frá níu listamönnum, víðsvegar að af landinu og meðal annars frá Rósu Valtingojer á Stöðvarfirði. Fuglarnir eru eðlilega mismunandi og sýningin því afar fjölbreytt,“ segir Sunneva.
Sunneva segir að fuglarnir séu afar vinsæl vara. „Ferðamenn eru æstir í að eignast fugla, en það er ekki á hvers manns færi að skapa þá og mikil kúnst að ná forminu. Íslendingar hafa líka mikinn áhuga á fuglum og tel ég það helgast af því að fuglalíf er mikið og fjölbreytt hérlendis og við erum í mikilli nálægð við þá, hvort sem er á landsbyggðinni eða á höfuðborgarsvæðinu. Svo eru fuglar alveg meinlausir, vekja gleði og eru okkar helsti vorboði.“
Formleg opnun verður föstudaginn langa
Á sýningunni er einnig bókin Fuglar sem Angústúra gaf út í fyrra. Að auki verður spilið Fuglafár eftir þær Birgittu Steingrímsdóttur og Heiðdísi Ingu Hilmarsdóttur á staðnum og geta gestir spreytt sig á því.
Dagleg opnun hefst svo á Skriðuklaustri föstudaginn langa 30. mars og frá þeim degi verður opið kl. 12-17 um helgar og á helgidögum en kl. 12-16 virka daga. Sýningin stendur til 22. apríl.