Ferskir vindar úr Vesturheimi blésu um Ísland í aðdraganda fullveldis
Upplýsingar frá Íslendingum sem flust höfðu til Kanada höfðu mikil áhrif á baráttu Íslands fyrir fullveldi og uppbyggingu í landinu um það leiti. Þetta var meðal þess sem rætt í Verkmenntaskóla Austurlands þegar 100 ára fullveldi Íslands var fagnað þar í morgun.Fullveldisdagurinn sjálfur er ekki fyrr en á morgun en nemendur VA nýttu síðasta skóladag vikunnar til að halda sína eigin fullveldishátíð.
Þar héldu nemendur ræður um tildrög fullveldisbaráttunnar, mikilvægi fullveldisins og atburði ársins 1918. Þeir skoðuðu einnig aðrar hliðar málsins, til dæmis stuðning Vestur-Íslendinga við samlanda sína í aðdraganda fullveldis og mikilvægi fánans sem sameiningartákns fullvalda þjóðar.
„Ferskir vindar bárust einnig frá Vesturheimi þar sem Vestur-Íslendingar hvöttu gömlu samlanda sína til dáða og framfara þar sem þeir kynntu Íslendingum fyrir nýjungum sem áttu þátt í því að nútíminn skolaðist á land á Íslandi.
Voru Vestur-Íslendingar duglegir við skrif á fræðiritum, dagblöðum og bréfum til Íslands og ekki óalgengt að fólk í Eyjafirði vissi meira um gang mála í Winnipeg höfuðborg Manitobafylkis í Kanada en lífið í Reykjavík.
Kynntu Íslendingar búsettir í Kanada löndum sínum fyrir frystingu á fiski sem jók geymsluþol hans og urðu aðrar fisktegundir en skreið og saltfiskur verðmætar útflutningsvörur. Vestur-Íslendingar áttu líka stóran þátt í stofnun Eimskipafélags Íslands árið 1914, en með komu þess urðu Íslendingar í fyrsta skipti sjálfstæðir í flutningi á vörum og fólki til og frá landinu síðan á þjóðveldisöld,“ rifjaði Birna Marín Viðarsdóttir upp.
Þeir nemendur sem ræddu stöðuna lögðu áherslu á mikilvægi áfangans og rökstuddu að 1. desember 1918 markaði stærri þáttaskil í sögu þjóðarinnar en 17. júní 1944. „Mikilvægi fullveldins var mikið því í fyrsta skipti síðan 1262 fóru Íslendingar einir með lagasetningar og framkvæmd þeirra laga sem sett voru á Íslandi,“ sagði Guðrún Helga Guðjónsdóttir
„Með fullveldistökunni 1. desember 1918 urðum við Íslendingar aftur þjóð meðal þjóða hafa þessi tímamót meiri þýðingu á sögu okkur en þegar við urðum sjálfstæð 1944 því þá riftum við einhliða samningi okkur við dönsk stjórnvöld sem var tekin í gildi 1. desember 1918,“ sagði Ýr Gunnarsdóttir.
Birna Marín Viðarsdóttir heldur ræðu í VA í morgun. Mynd: Ágúst Ingi Ágústsson