Flúrað yfir örin
Margir þungarokksaðdáendur hafa mátt upplifa smánun og einelti fyrir tónlistarsmekk, segir norskur rokkaðdáandi sem fyrir fjórum árum stofnaði samtök til baráttu gegn einelti. Í samstarfi við húðflúrstofur bjóða samtökin upp á að flúrað sé yfir ör eftir tilraunir til sjálfsskaða.„Eitt af okkar mikilvægustu verkefnum heitir „prettier scars“ (fallegri ör) þar sem við vinnum með húðflúrstofum og bjóðum fólki að fá ókeypis húðflúr til að hylja ör eftir sjálfsskaða. Við ætlum að bjóða upp á slíkt hér á laugardag og erum þegar komin með tvo einstaklinga sem munu fá húðflúr,“ segir Leif Munkelien.
Leif stofnaði samtökin Metalheads Against Bullying (Járnhausar gegn einelti eða MAB) fyrir fjórum árum. Nafnið kemur frá því að bæði hann og vinir hans séu miklir þungarokksaðdáendur en samtökin hjálpi öllum þeim sem orðið hafi fyrir einelti, óháð tónlistarsmekk.
Hann bendir hins vegar á að margir þungarokksaðdáendur hafi bæði í skóla og allt fram á fullorðinsár orðið fyrir einelti vegna tónlistarsmekks og klæðaburðar. „Ég heyrði nýverið sögu af fullorðnum manni sem missti vinnuna út af tónlistinni sem hann hlustaði á og því hann tilheyrir samfélagi þungarokkara.“
Leif er á þungarokkshátíðinni Eistnaflugi, sem haldin er í Neskaupstað um helgina, og er þar til viðtals ásamt konu sinni fyrir hvern þann sem vill ræða um einelti. „Það hafa nokkrir talað við mig en yfirleitt opnar fólk sig frekar þegar það er búið að sjá okkur oftar en á einni hátíð.“
Þá mun Leif tala í sérstakri málstofu um einelti sem haldin verður í Safnahúsinu í Neskaupstað í dag klukkan 13:00.