Fór heim með fullan spilastokk af nafnspjöldum

Kristján Krossdal, sem framleiðir byssuskefti undir nafni Krossdal Gunstock, varð nýverið fyrsti íslenski framleiðandinn til að sýna vöru sína á einni stærstu skotvopnasýningu heims. Kristján er ánægður með hvernig til tókst á sýningunni og segir mikinn áhuga á afurðum fyrirtækisins.

„Viðbrögðin fóru fram úr mínum björtustu vonum. Það lá við að maður kiknaði í hnjánum þegar stóru strákarnir komu að skoða og kvöddu með orðunum: „It‘s beautiful,““ segir Kristján um ferðina í nýjasta tölublaði Austurgluggans.

Sýningin heitir IWA & OutdoorClassics og er haldin í Nürnberg í Þýskalandi ár hvert. Sýningin stendur í fjóra daga og er haldin í 11 höllum á 110 þúsund fermetrum.

Kristján hefur í á þriðja ár hannað eigin byssuskefti og meðal annars sigrað í frumkvöðlakeppnum sem haldnar hafa verið á Austurlandi. Hann byrjaði í bílskúrnum heima hjá sér en fyrir rúmu ári var ljóst að hann væri ekki nógu stór og flutti Kristján sig þá yfir í Fellabæ. Það var meðal annars til að koma fyrir stórum tölvustýrðum CNC-fræsara sem sérpantaður var frá Bandaríkjunum.

„Hann kom í júní í fyrra. Fyrir þann tíma var ég búinn að smíða 2-3 frumgerðir en þær eru orðnar 15-20 eftir að fræsarinn kom. Þróunin hefur því verið mest síðustu 8-10 mánuði.

Mig hefur alltaf langað í ákveðna gerð af skeftum en þau hafa ekki verið fáanleg með þeim eiginleikum sem ég vildi. Ég byrjaði á að hanna skefti með innfelldum einfæti sem veitir aukastuðning aftan á því. Til þessa hafa menn keypt slíka fætur og sett utan á skeftin en þá þvælast þeir fyrir þegar ekki er verið að nota þá. Síðan er hægt að setja benchrest-forskefti, fest með seglum, framan á.“

Einstök vara

Kristján fór út með tvö skefti á sýninguna og í öðru þeirra var riffill með sjónauka og hljóðdeyfi þannig að gestir gátu áttað sig á hvernig rifflarnir þeirra myndu líta út í Krossdal skefti. Fyrir utan að skeftin auki þægindi er markmiðið að þau gleðji auga skotáhugamannsins.

„Ég smíða þau úr límtré sem ég kaupi frá Finnlandi og set spýtubútana í raun saman úr tveimur kubbum. Framleiðandi timbursins hafði aldrei séð það gert áður þótt hann framleiði fyrir nánast allan Evrópumarkað.“

Viðtökurnar á IWA voru sem fyrr segir jákvæðar. „Það virtust allir kaupa að skeftin okkar væru með einstaka eiginleika,“ segir Kristján.

Stefnir á erlendan markað

Fjöldaframleiðsla skeftanna er hafin og í kjölfarið fara þau að sjást í íslenskum skotveiðiverslunum, meðal annars hjá Veiðiflugunni á Reyðarfirði. Sá markaður getur hins vegar mettast fljótt enda er stefnt á erlendan markað. Þegar er frágenginn samningur við endursöluaðila í Svíþjóð og prufur verða sendar á næstunni til Ítala sem hefur áhuga.

„Svo kom ég heim með heilan spilastokk af nafnspjöldum frá áhugasömum aðilum. Það er ekkert fast í hendi enn en tilfinningin er að eitthvað sé að fara að gerast. Það er óeðlilegt ef ekki leynist eitthvað í spilastokknum,“ segir Kristján.

Hann nefnir sem dæmi að fulltrúar frá stórum þýskum byssusmiðum, eins og Blaser og Anshütz hafi staldrað lengi við á básnum hans, en síðarnefndi framleiðandinn er til dæmis áberandi meðal þeirra sem stunda skíðaskotfimi.

„Ég seldi eitt skefti á sýningunni. Það var þýskur byssusmiður sem kom þrisvar á básinn okkar fyrstu dagana. Í síðasta skiptið kom hann með dóttur sína með sér til að túlka. Hann vildi eignast skeftið sem var á borðinu fyrir framan hann en við megum ekki selja beint yfir borðið á sýningunni.“

Kristján, lengst til vinstri, ásamt Unnari Erlingssyni og Frosta Sigurðarsyni sem sáu um sýningarbás Krossdal á IWA. Mynd: Úr einkasafni


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.