Franski sendiherrann á Íslandi setur kvikmyndahátíð í Sláturhúsinu
Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs tekur nú þátt í franskri kvikmyndahátíð sem haldin er í nítjánda skipti hérlendis. Tvær sýningar verða í Sláturhúsinu á Egilsstöðum, sú fyrri í kvöld og sú seinni annað kvöld.Hátíðin er á vegum Alliance Française í Reykjavík og franska sendiráðsins á Íslandi, í samstarfi við Institut français. Myndirnar sem sýndar verða í Sláturhúsinu eru Litli Bóndinn (Petit Paysan), á fimmtudagskvöld og Sjúklingarnir (Patients) á föstudagskvöld. Báðar sýningarnar hefjast klukkan 19:30. Menntaskólinn á Egilsstöðum tekur einnig þátt í hátíðinni og mun sýna myndina Swagger á föstudag.
Litli kúabóndinn vel við hæfi á Egilsstöðum
Graham Paul, franski sendiherrann á Íslandi, opnar hátíðina og býður gestum fordrykk fyrir sýningu í kvöld. Oddur Eysteinn Friðriksson er tækni- og kynningarfulltrúi Menningarmiðstöðvar Fljótsdalshéraðs.
„Við erum mjög spennt fyrir því að fá hann í heimsókn. Það er spurning hvort hann bjóði upp á franskt rauðvín eða kampavín, en Frakkar eru nú þekktir fyrir bæði góðan mat og góð vín.
Það er mjög gaman að fá tækifæri til að taka þátt í hátíðinni og geta boðið Austfirðingum upp á sömu menningu og í Reykjavík en þessi hátíð er afar vinsæl þar, enda franskar kvikmyndir mjög góðar. Hér verða sýndar tvær mjög skemmtilegar myndir og önnur þeirra nefnist Litli kúabóndinn sem er aldeilis við hæfi hér á Egilsstöðum,” segir Oddur Eysteinn.
Eru Austfirðingar duglegir að mæta á menningarviðburði? „Ég myndi segja að þeir væru nokkuð duglegir en það má alltaf gera betur. Auðvitað eigum við að mæta og njóta þess sem boðið er uppá. Salurinn í Sláturhúsinu er mjög sjarmerandi og með mikinn karakter og það er sérstaklega gaman að sýna kvikmyndir í þessu skemmtilega rými.”