„Fyrrverandi maðurinn minn er ein besta vinkona mín í dag“
Vala Friðriksdóttir frá Eskifirði hefur gengið í gegnum reynslu sem fæst okkar hafa upplifað, en barnsfaðir hennar og fyrrverandi maki er nú í kynleiðréttingarferli. Vala kaus að segja lesendum Austurgluggans sögu sína þar sem henni þótti skorta umræðu um transfólk í íslensku samfélagi og villdi leggja sitt af mörkum til að opna umræðuna um þetta viðkvæma málefni .
Vala Friðriksdóttir hafði verið með barnsföður sínum í sex ár þegar hann tilkynnti henni að hann teldi sig vera fæddan í röngum líkama. Hann hét þá Valur Sigurbjörn Pálmarsson en heitir í dag Sunneva Ósk Pálmarsdóttir. Á þessum tíma var dóttir þeirra tveggja ára gömul og litla fjölskyldan nýlega flutt heim frá Svíþjóð þar sem þau höfðu dvalið í ár.
„Auðvitað var þetta gríðarlegt áfall. Ég hafði reyndar greint breytingar á honum en taldi hann vera að glíma við þunglyndi. Ég hélt jafnvel að það reyndist honum erfitt að vera kominn heim frá Svíþjóð þar sem okkur hafði liðið svo vel. En það var þá þetta sem hafði hvílt svona þungt á honum,“ segir Vala, sem segist hafa verið í hálfgerðu móki fyrstu dagana eftir að hún fékk fréttirnar. Þetta var ofboðslega erfiður tími og auðvitað mikið áfall fyrir alla í kringum okkur, ekki síst foreldra hans. Það var samt svo greinilegt frá upphafi að fólkið okkar ætlaði að styðja okkur alla leið. Ég treysti mér ekki til þess að segja foreldrum mínum þetta í síma og beið því í nokkra daga með það þar til pabbi kom suður, en þá brotnaði ég líka alveg niður. Ég gleymi því aldrei þegar ég horfði á pabba faðma tengdason sinn og segja honum að hann stæði með honum alla leið og hann gæti alltaf leitað til hans. Pabbi flutti svo mömmu og yngri systur minni fréttirnar og það var víst ekki þurrt auga í því samtali.“
Kynvitundin og kynhneigð er ekki það sama
Aðspurð að því, ef hún horfi til baka, hvort hún sjái núna einhver merki sem hún hefði getað lesið í aðstæður, segir Vala svo ekki vera. „Nei, alls ekki, enda áttaði hann sig sjálfur ekki á þessu fyrr en út í Svíþjóð. Þetta er reyndar sú spurning sem ég hef oftast fengið. Hún er svo sem góð og gild, en ég hugsa samt stundum hvort hún skipti einhverju máli? Við vorum einfaldlega par sem enginn bjóst við að myndi nokkurn tímann hætta saman. Við vorum mjög ástfangin og það er ástæðan fyrir því hversu sárt það var að þurfa að skilja,“ segir Vala, en ákvörðun um skilnað var tekin þremur vikum síðar.
Vala segir það algengan misskilning að kynvitund og kynhneigð sé það sama. „Ég fékk oft spurninguna: Hrífst hann þá ennþá af konum? Já, í hennar tilfelli er það er svoleiðis. Kynhneigðin breyttist ekki neitt en hún uppgötvaði sína sönnu kynvitund og kyntjáningin varð önnur, aðeins kynvitundin. Ég breyttist hins vegar ekki og áframhaldandi samband því erfitt fyrir mig. Við veltum þó upp öllum möguleikum og ræddum mikið hvort við gætum fundið einhverja leið til þess að láta þetta ganga. Niðurstaðan var alltaf sú sama; annað hvort okkar yrði aldrei jafn hamingjusamt og sátt til lengri tíma litið. Þetta var ótrúlega erfið ákvörðun að taka,“ segir Vala en hún var tekin eftir samtöl þeirra beggja við ráðgjafa.
„Venjulega pælir hún ekkert í þessu“
Vala segir að illgerlegt hefði verið fyrir Val að breyta nafinu sínu í Völu. Nafnið Sunneva Ósk varð því fyrir valinu, en hún hóf kynleiðréttingaferlið í október 2017 og hormónameðferð sumarið 2018.
„Það hefði orðið afar ruglingslegt fyrir dóttur okkar að eiga „mömmu Völu“ og „mömmu Völu“. Í dag er dóttir okkar þriggja og hálfs árs en við byrjuðum strax að undirbúa hana á eins einfaldan hátt og hægt var. Við sögðum henni til dæmis að pabbi hennar væri strákur en langaði að vera stelpa, það var ekki hægt að útskýra það betur.
Auðvitað hefur hún oft verið hálfgert spurningamerki yfir þessu öllu saman en venjulega pælir hún ekkert í þessu. Hún á tvær yndislegar og hæfar mömmur, en það er það eina sem skiptir máli. Hún er á frábærum leikskóla sem hefur tekið þessu mjög vel og unnið með okkur. Ég hef engar áhyggjur af því að hún muni verða fyrir aðkasti vegna þessa.“
Góðar vinkonur sem styðja hvor aðra
Vala segir þær Sunnevu Ósk vera góðar vinkonur í dag. „Fyrrverandi maðurinn minn er ein besta vinkona mín í dag. Þetta er auðvitað stundum mjög ruglingslegt en samt mjög gott. Ég finn að ég sakna þess vissulega að eiga hana ekki lengur sem maka en ég hef hins vegar aldrei efast um að ákvörðunin var rétt. Skilnaðurinn var erfiður og sár, en þó á fallegan hátt. Okkur hefur alltan tíman borið gæfa til að halda vinskap og styðja hvor aðra í þessu. Við getum einnig sagt hvor annarri þegar okkur líður ömurlega illa með þetta allt saman. Maður má alveg leyfa sér að eiga slæma daga, en ef maður bælir tilfinningarnar niður springur maður einn daginn og það er ekki eitthvað sem ég vil.
Ég held að það hafi hjálpað mér mjög mikið hversu jákvæð og víðsýn ég er að eðlisfari. Öll erum við manneskjur og enginn græðir á því að vera með illindi við saklausan einstakling. Hún gerði mér ekki neitt, fylgdi aðeins sínu hjarta og eins ótrúlega sárt og það er verð ég bara að vinna með það.
Ég er ekki endilega sammála því að tíminn lækni öll sár, en hann hefur mikið að segja.. Ég á góða að og fer alltaf mánaðarlega til ráðgjafa í Lausninni. Ég vildi óska að það væri orðið almennara að fólk leitaði sér aðstoðar, við þurfum öll að rækta hugann eins og líkamann.“
Hafði engin kynni af transfólki áður
Aðspurð að því hvað hafi komið henni mest á óvart við ferlið segir Vala: „Bara allt í rauninni. Ég hafði engin kynni af transfólki áður og þekkti ekkert til. Það kom mér þó kannski helst á óvart að átta mig á hve gífurleg vanlíðan fylgir hjá þeim sem er að ganga í gegnum þetta ferli, allavega í fyrstu í tilfelli Sunnevu. Henni fannst alveg ótrúlega erfitt að stíga þessi fyrstu skref en um leið var það heilmikill léttir fyrir hana. Ég held að fólk geri sér almennt ekki grein fyrir því hversu erfitt og sárt þetta ferli er.“
Vala segist einnig hafa verið undrandi á því hve sterkar skoðanir fólk hafi haft á hinu og þessu tengdu ferlinu. „Fólk hafði skoðanir á öllu. Eins og til dæmis að það væri undarlegt að hún hefði bara fyrst áttað sig á þessu þegar við vorum úti í Svíþjóð. Að hún hlyti að hafa gert það fyrr, örugglega strax í æsku, bara rétt eins og það vissi miklu betur um hennar líðan en hún sjálf. Að hún hefði örugglega verið í afneitun og bælt þetta niður. Auðvitað veit enginn neitt um þetta nema hún sjálf.“
Orðræðan kom á óvart
Vala segir að orðræðan varðandi transfólk hafi komið sér verulega á óvart. „Sérstaklega með fólk á mínum aldri sem ég taldi opið og víðsýnt. Spurningin: „Ætlar hann að breyta sér í konu?“ var algeng. Nei, hann er kona og ætlar að leiðrétta kyn sitt, var mitt staðlaða svar á móti. Einnig: „Ætlar hann þá bara að ganga í kjól núna?“ Bara svona eins og við séum að skilja út af einhverju léttvægu flippi. Ég hef líka fengið spurninguna; „Ætlar hann þá bara að skera af sér tittlinginn?” Í alvöru! Þetta leyfir fólk sér bara að segja og það við fólk sem er enn í sárum. Í fyrsta lagi kemur engum það við hvernig kynfærin okkar líta út, ég spyr engan að því.
Ráðgjafinn minn hjá Samtökunum ´78 hefur einmitt talað um þetta, að fólk telji það hafa skotveiðileyfi á jaðarhópa. Ég hef fundið fyrir því. Hvernig dettur fólki í hug að hæðast að aðstæðum og einstaklingum í stað þess að hlúa að þeim ? Við verðum að passa hvernig við tölum og velja orðin rétt. Það er heldur ekki við hæfi að spyrja hvort einstaklingurinn ætli „alla leið“ eða ekki. Það skiptir engu máli. Það eina sem skiptir máli er að þessum einstaklingum líði vel og fylgi eigin sannfæringu. Þegar Sunneva Ósk var ennþá Valur var hann félagsfælinn og lokaður. Það er gerbreytt í dag vegna þess að hún er orðin hún sjálf.“