Gáfu HSA 1,2 milljónir króna
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 29. okt 2019 10:47 • Uppfært 29. okt 2019 10:47
Samband stjórnendafélagi færði nýverið Heilbrigðisstofnun Austurlands 1,2 milljónir að gjöf í tengslum við þing félagsins sem haldið var á Hallormsstað. Féð hefur verið nýtt til kaupa á ómskoðunartæki sem staðsett verður á Reyðarfirði.
„Tækið er komið og byrjað að nota það,“ segir Nína Hrönn Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá HSA.
Hefð er fyrir að stjórnendafélagið gefi úr sjúkrasjóði sínum til málefna á því svæði sem þing þess er haldið hverju sinni.
Nína Hrönn segir tækið nýtast bæði læknum og hjúkrunarfræðingum í starfi sínu. Það nýtist meðal annars til að skoða ófrískar konur, meta blóðflæði í útlimum, kanna mjúkvefi, til hjartaskoðunar og til að athuga þvagblöðrur.
Tækið verður staðsett á Reyðarfirði en lokið verður við stækkun heilsugæslustöðvarinnar þar á næstu vikum. „Það er verið að byggja Reyðarfjörð upp sem móttökustað fyrir bráðatilfelli í Fjarðabyggð. Það er alveg að gerast að við fáum þar góða vinnuaðstöðu fyrir starfsfólkið okkar,“ segir Nína Hrönn.