Glímubrögðin hafa nýst í dyravörslu

Ásmundur Hálfdán Ásmundsson frá Reyðarfirði var kosinn glímumaður ársins ásamt Kristínu Emblu Guðjónsdóttur af Glímusambandsins Íslands á dögunu, en bæði keppa þau undir merkjum UÍA. Ásmundur er í yfirheyrslu vikunnar.

 

Ásmundur, sem er 24 ára gamall, hefur stundað glímu í sextán ár. Í fyrra sigraði hann öll glímumót sem hann tók þátt í á árinu en hans helsta afrek var þegar hann sigraði Íslandsglímuna og hlaut þar með Grettisbeltið í þriðja sinn. Hann hefur sópað til sín verðlaunum undanfarin ár, en hann var kosinn íþróttamaður Vals 2016 og 2017, auk þess að vera íþróttamaður UÍA sömu ár. Hann var kosinn íþróttamaður Fjarðabyggðar árið 2016.

„Þetta var skemmtileg tilnefning, við Reyðfirðingarnir erum að uppskera vel þessa dagana í glímunni, vona að það sé komið til að vera. Það er alltaf gaman að fá þessar viðurkenningar og það hvetur mann til að halda áfram og gera enn betur.

Kemst Ásmundur hærra í glímunni en það sem orðið er? „Ég kemst kannski ekki hærra í íslensku glímunni en það eru enn ég hef tækifæri á að ná stóru markmiði í vor þegar Evrópumeistaramótið í keltneskum fangbrögðum fer fram hér á Íslandi. Þá verður keppt í glímu, Backhold og Gouren. Þar er markmiðið að ná að minnsta kosti tveimur af þremur gullum þar. Ég ætla að halda áfram svo lengi sem ég hef gaman af þessu,  vona að það verði sem lengst.“

 

Fullt nafn: Ásmundur Hálfdán Ásmundsson.

Aldur: 24 ára.

Starf: Nemi við Háskólann í Reykjavík, vinn þess á milli hjá Fjarðaáli.

Maki: Marín Laufey Davíðsdóttir.

Börn: Engin svo ég viti til.

Mesta undur veraldar? Að Donald Trump hafi orðið foresti.

Hefur þú notað glímubrögð utan vallar og þá í hvaða tilfellum? Já þau komu sér oft vel þegar ég vann sem dyravörður fyrir nokkrum árum.

Er glíma töff íþrótt? Já mér finnst það, hún er samt vissulega öðruvísi en það sem er vinsælast í dag.

Hver er þinn helsti kostur? Ég get haldið einn á þvottavél.

Hver er þinn helsti ókostur? Ég þarf hjálp með þriggja sæta sófann.

Hvað ertu með í vösunum? Síma, veski, húslykla og kveikjara síðan á áramótunum.

Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú varst yngri? Markmaður Arsenal, ef ekki, þá vísindamaður.

Hver er uppáhaldsstaðurinn þinn á Austurlandi? Reyðarfjörður, ekki spurning.

Ef þú gætir öðlast yfirnáttúrulegan kraft, hver væri hann? Að geta haldið á samsettum hornsófa.

Hvernig líta kósífötin þín út? Dallas Mavericks treyja með Dirk Nowitzki og íþróttabuxur.

Hvað er rómantík fyrir þér? Ég veit það hreinlega ekki.

Besta jólagjöfin í ár? Falleg stytta af rjúpu frá Gallerí Snærós á Stöðvarfirði

Af hverju starfar þú í björgunarsveit? Mér finnst mikilvægt að leggja mitt af mörkum ef ég get hjálpað einhverjum í neyð. Einnig hef ég mjög gaman af því að brasa í vondum veðrum, hvort sem það er að festa þakplötur, draga bíla eða leita að fólki.

Hvaða kost í fari einstaklinga kannt þú helst að meta? Kurteisi og heiðarleika fyrst og fremst.

Hver er þín helsta fyrirmynd? Það er rosalega mikið af fólki, þá aðallega fólk sem er að láta gott af sér leiða.

Ef þú fengir að hitta hvaða persónu úr mannkynssögunni sem væri, hver yrði fyrir valinu? Ég væri mikið til í að hitta Morgan Freeman, bara til að hlusta á hann í eigin persónu.

Hver er þín fyrsta æskuminning? Þegar ég var skammaður á leiksólanum fyrir að pissa í gegnum girðinguna með Matta vini mínum.

Mesta afrek? Þegar ég vann Íslandsglímuna og varð Evrópumeistari í backhold á sama ári.

Ertu nammigrís? Já ætli það ekki.

Duldir hæfileikar? Ég er ágætur að elda.

Besta bíómynd allra tíma? Django Unchained.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.