Hammond-hátíð sett af aga og hörku í morgun

Djúpavogsbúar fagna komu sumars að venju með Hammond-hátíð. Hún er borin uppi af stórtónleikum en í gangi verða fjölbreyttir viðburðir út um allan bæ. Stjórnandi segist finna fyrir miklum áhuga á hátíðinni.

„Ætli við verðum ekki að fara eftir dagskránni og segja að Hammond-hátíð hafi ekki verið með miklum aga og hörku klukkan 6:15 í morgun,“ segir Ólafur Björnsson, stjórnandi Hammond-hátíðar á Djúpavogi.

Á hátíðinni er Hammond-orgelið og hljómur þess heiðraður með fernum tónleikum sem fram koma á landskunnar rokksveitir. Fyrstu tónleikarnir verða á morgun, fyrsta dag sumars, með þungarokkssveitinni Dimmu.

Auk tónleika verða í boði fjöldi hliðarviðburða og samkvæmt dagskrá hátíðarinnar var fyrsti viðburður hennar Hammond-þrek í íþróttahúsinu, sem Ólafur segist „því miður ekki hafa komist á.“

Af öðrum hliðarviðburðum má nefna edrúlífið í Djúpavogskirkju á laugardag, Ingó töframann, bjórjóga, ljóðalestur og sjósund auk þess sem verslanir og veitingastaðir taka gestum opnum örmum.

„Hátíðin hefur þróast í gegnum tíðina og flóran er alltaf að breytast og bætast. Gestrisnin er eitt af því sem einkennir Djúpavogsbúa og um helgina kemur töluvert af aðkomufólki,“ segir Ólafur.

Af tónleikunum er það að segja að á morgun spila Dúndurfréttir, Ensími og Jónas á laugardag og Lay Low á sunnudag.

„Staðan núna er nokkuð kunnugleg. Við höfum stjórn á öllu og allir vinna sína vinnu við að gera klárt. Miðasalan hefur gengið nokkuð vel þótt enn séu eftir nokkrir miðar á alla tónleikana.

Yfirleitt hefur eitt kvöldið verið stærra en önnur en nú hefur salan verið nokkuð jöfn. Hátíðin hefur þróast í þessa átt hjá okkur síðustu ár. Áður vorum við með fleiri en eitt atriði á hverju kvöldi, en kannski minni númer, nú eru öll kvöldin aðalkvöld, þótt við gefum aðeins meira í á laugardagskvöldið með tveimur hljómsveitum.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.