Handskrifuð markmið festast betur í minni

„Rannsóknir hafa sýnt að fólk sem setur sér skýr markmið nær meiri árangri í lífinu,“ segir Erla Björnsdóttir sálfræðingur frá Norðfirði og höfundur dagbókarinnar Munum. Erla gefur lesendum góð ráð til þess að hámarka árangur á nýju ári.


„Þeir sem ná langt á sínu sviði eru sjaldnast komnir þangað fyrir einskæra tilviljun, oftast liggur þrotlaus vinna og mjög skýr markmiðasetning þar að baki. Ef við höfum skýr markmið þá erum við búin að marka okkur stefnu sem við vinnum eftir, ef við höfum engin markmið er hætt við því að við villumst af leið og vitum ef til vill ekki hvert okkur langar að stefna,“ segir Erla.

Mikilvægt að hafa markmiðin skrifleg
Erla segir lykilatriði að festa markmiðasetninguna á blað. „Þegar við skrifum niður markmiðin okkar er líklegra að við náum þeim. Þau verða raunverulegri fyrir okkur og það verður einhver mögnuð tenging sem á sér stað þegar við skrifum markmið, hugsanir og drauma niður á blað. Það er ekki sama tenging sem á sér stað þegar við skrifum eitthvað inní tölvuna. Það sem við handskrifum festist betur í minni okkar og nær betur til okkar.“

„Bucket-listi“ góður leiðarvísir til að vinna áfram með
Erla segir miklu máli skipta gefa sér góðan tíma við markmiðasetninguna. „Við verðum að hugsa um það sem við virkilega viljum gera í lífinu, hvaða áföngum við viljum ná og hvaða hluti við viljum framkvæma.

Til dæmis getur verið góð leið að byrja að skrifa svona „Bucket lista” sem inniheldur 100 atriði sem okkur langar að upplifa og framkvæma yfir ævina. Í amstri dagsins gefum við okkur sjaldan rými til þess að hugsa á þennan hátt og margir eru sífellt að fresta draumum sínum þar til hið fullkomna augnablik kemur, en svo bara kemur það ekki og þess vegna verðum við að búa það til. Þegar við erum komin með svona lista höfum við góðan leiðarvísi sem hægt er að vinna áfram með, þá er hægt að forgangsraða og setja markmiðin upp í rétt skref.“

„If you can dream it, you can do it“
Erla segir fólk oft svo upptekið af þeim hindrunum sem gætu orðið í veginum og þori þess vegna ekki að láta sig dreyma stórt.
„Það er eitt verkefni sem mér finnst mjög skemmtilegt og gagnlegt, en það er að skrifa sjálfum sér bréf þar sem maður lýsir sjálfum sér eftir fimm ár – ef að allt gengur upp og engar hindranir eru í veginum.

Semsagt í raun er maður að skrifa bréf þar sem maðurn lýsir sínu draumasjálfi eftir fimm ár. Hvar er maður staddur í heiminum? Við hvað starfar maður? Hvernig er fjölskyldumynstrið? Félagsleg tengsl? Hvernig karakter er maður? Hvernig er dagleg rútína? Hver eru gildi manns? Því nákvæmari og fleiri smáatriði sem maður kemur inn í bréfið, því betra. Þegar maður skrifar svona bréf er algjört lykilatriði að sleppa alveg öllum hömlum og gleyma því sem kallast hindranir og leyfa sér að dreyma stórt, og raunverulega loka augunum og sjá sjálfan sig fyrir sér eins og maður lýsir í bréfinu; If you can dream it, you can do it! Það er alveg magnað hvernig lögmálið „Law of attraction“ virkar með svona verkefni. Það sem fer í þetta bréf fer ósjálfrátt að draga mann til sín og oftar en ekki er maður komin langleiðpina á áfangastað fimm árum seinna, ég mæli með þessu!“


Markmið þurfa að vera sértæk og nákvæm
Erla segir mikilvægt að markmiðin séu sértæk og nákvæm. „Þá er auðveldara að framkvæma þau og mæla árangur. Til dæmis er markmiðið; „Ég ætla að hugsa vel um heilsuna mína”mjög óljóst markmið sem erfitt getur verið að framfylgja og árangursmæla. Hins vegar ef við tökum markmiðið lengra og gerum það mælanlegt og nákvæmt er mun auðveldara að fylgja því eftir. Til dæmis mætti umorða þetta markmið og segja; „Ég ætla að hugsa betur um heilsuna mína með því að hreyfa mig að minnsta kosti þrisvar í viku, taka vítamín alla daga og borða fisk tvisvar í viku”. Þarna erum við komin með mun skýrara markmið sem auðveldara er að fylgja eftir.“


Getum ekki gert allt í einu
Erla segir að varast beri að setja sér of mörg markmið í einu. „Það sem er mikilvægast í markmiðasetningu er að hafa markmiðin skýr, mælanleg og raunhæf. Ég held að mörg mistök liggji einmitt í því að fólk setur sér mörg óljós markmið sem oft eru mjög óraunhæf, það á algerlega að breyta um lífsstíl á núll einni og svo springa því miður margir um miðjan janúar. Þess vegna er svo mikilvægt að fylgja markvissum skrefum í þessu og vera duglegur að endurskoða og endurskilgreina markmiðin sín ef þau eru ekki að ganga upp eins og maður sá fyrir.

Í MUNUM dagbókinni okkar leggjum við til dæmis til að fólk setji sér þrjú yfir markmið fyrir árið sem síðan eru tekin niður í smærri undirmarkmið sem eru gerð mælanleg til þess að auka líkur á árangri. Svo er fólk einnig hvatt til að seta sér sérstök markmið fyrir hvern mánuð, hverja viku og hvern dag.“

Mikilvægt að fylgjast með árangri og endurskoða markmið
„Ein megin ástæðan þess að mörg markmið renna í sandinn er líklega sú að markmiðin eru of víðtæk og jafnvel óraunhæf. Einnig held ég að hluti af ástæðunni liggji í því að fólk endurskoði markmiðin sín ekki reglulega og fylgjast með árangri. Markmiðin eru ef til vill sett um áramót en svo ekki skoðuð aftur fyrr en áramótin þar á eftir. Vegna þessa getur verið að sumir séu sífellt að setja sér sömu áramótaheitin ár eftir ár. Ég myndi því leggja það til að vera með endurskoðun á sínum markmiðum að minnsta kosti ársfjórðungslega.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.