Hápunktur barnamenningarhátíðarinnar BRAS um helgina

Hápunktur BRAS – Menningarhátíðar barna og ungmenna á Austurlandi verður í Íþróttahúsinu á Egilsstöðum á laugardag. Hátíðin er nú haldin í annað sinn.

Þótt hátíðin nái um helgina teygir dagskrá hennar sig yfir allan september og fram í október. Um helgina verður þó haldin uppskeruhátíð þar sem gestir fá að sjá afrakstur þeirra listviðburða sem liðnir eru.

Nemendur úr sirkussmiðju sýna afrakstur sinnar vinnu og BRAS dansinn verður stiginn. Bæjarsirkusinn leikur listir sínar en það er sirkussýning fyrir káta krakka þar sem töfrar sirkus vakna til lífsins. Gestir fá að sjá að sjá óttalausan áhættuleikar, ótrúlega línudansmær, lipurt loftfimleikafólk og margt annað skemmtilegt.

Öllum grunnskólanemendum er boðið í sirkus á skólatíma og verða sýningar haldnar á Fáskrúðsfirði, Eskifirði og Egilsstöðum í samstarfi við sveitarfélögin og grunnskólana.

Austurbrú, Menntaskólinn á Egilsstöðum og Verkmenntaskóli Austurlands hafa tekið höndum saman og bjóða nemendum einnar einingar áfanga í sirkuslistum. Nemendur menntaskólanna vinna í smiðjum í heila viku og læra þar ýmislegt eins og loftfimleika, djöggl og akróbatík.

Fimleikadeildir og fleiri fá einnig að njóta góðs af heimsókn sirkusfólksins því boðið verður upp á smiðjur í samstarfi við þær og fleiri aðila.

Um helgina verður einnig Maxímús Músíkus á ferðinni ásamt félögum sínum úr Sinfóníuhljómsveitum Austur- og Norðurlands sem koma fram á fernum tónleikum í fjórðungnum.

Fjölbreytt námskeið hjá menningarstofnunum

Fjölmargir aðilar taka höndum saman um BRAS-hátíðina í fjölbreyttri listsköpun þar sem þemað er „Tjáning án tungumáls.“

Af því sem boðið er upp á í mánuðinum má nefna að Skaftfell, myndlistarmiðstöð Austurlands, býður grunnskólabörnum upp á námskeið í farandlistum, Tónlistarmiðstöð Austurlands býður grunnskólabörnum upp á fyrirlestraröð sem kveikir áhuga á tónlistariðkun og tónlistarsköpun í tengslum við Upptaktinn, tónsköpunarverðlaun barna í 5.-10. bekk.

Þá býður Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs uppá sýningu sem skoða má sem óleyst sakamál frá 18. öld, en einnig sem óvenju spennandi sagnfræðisýningu og loks sem #metoo sögu frá fyrri öldum. Þessu til viðbótar eru menningarmiðstöðvarnar einnig með alls konar opna viðburði til dæmis dansnámskeið, námskeið í prentun, sýningu á teikningum úr barnabókum og svo mætti lengi telja.

Þá koma góðir gestir í heimsókn, leiksýningar verða haldnar fyrir leikskólabörn, ritlistarsmiðjur í grunnskólum og opin dansnámskeið.

Minjasafn Austurlands býður upp á fornleifasmiðju, leikjasmiðju og tálgunarsmiðju. Sköpunarmiðstöðin á Stöðvarfirði býður upp á vinnusmiðju í hljóðupptöku, ungir listamenn sýna verkin sín og hæfileikakeppni verður haldin á Vopnafirði.

Ókeypis er á alla viðburði BRAS, nema annað sé tekið fram.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.