„Hattarnir blikka ennþá“
„Skötuveislan verður aðeins í hádeginu í ár. Venjulega höfum við bæði verið í hádeginu og á kvöldin, en við erum orðin svo gömul núna og vildum létta af okkur vinnunni,“ segir Hallgrímur Arason, formaður Félags eldri borgara á Eskifirði, en það stendur fyrir hinu árlega skötuhlaðborði í Valhöll á Eskifirði á morgun, Þorláksmessu.
Félag eldri borgara á Eskifirði heldur sína árlegu skötuveisluna í Valhöll á morgun Þorláksmessu milli klukkan 12:00 og 15:00.
Nokkur ár eru síðan félagið tók upp á því að vera með skötuveislu fyrir gesti og gangandi á Eskifirði og hefur hún notið mikinna vinsælda.
„Það eru nokkuð mörg ár síðan við gerðum þetta fyrst, en hugmyndin kviknaði sem góð fjáröflunarleið fyrir félagið. Fyrstu árin vorum við með veisluna í Melbæ, sem er félagsaðstaða okkar eldri borgara á Eskifirði, en bæði er aðkoman að húsinu erfið að vetrarlagi og húsnæðið lítið þannig að við ákváðum að færa okkur í Valhöll með vaxandi aðsókn,“ segir Hallgrímur.
Bæði verður tindabikkja og stórskata á boðstólum, auk saltfisks, sigins fisks, síldar, rúgbrauðs og fleira. „Tindabikkjuna fáum við alltaf frá Tjaldinum SH en okkur áskotnuðust tvær stórskötur frá ágætum sjómanni þetta árið. Við hreinsum og verkum skötuna og tindabikkjuna sjálfir þannig að þetta er nokkuð mikil vinna.“
Gestir hvattir til þess að skrá komu sína
Eldri borgararnir standa sjálfir vaktina við framreiðsluna og skarta við það skemmtilegum höttum. „Hattarnir blikka ennþá, en við keyptum þessa hatta fyrir nokkrum árum og höfum verið með þá við þetta tilefni síðan,“ segir Hallgrímur sem hvetur fólk til þess að skrá sig ef það ætlar að mæta á morgun, því það sé betra til þess að hægt sé að áætla matarmagnið.
Verðið 2.500 á mann, frítt fyrir yngri en 16 ára. Borðapantanir eru í dag milli klukkan 13:00-15:00 í síma 476-1760.