Skip to main content

„Hef ekki enn fundið þessa línu sem sumir þora ekki yfir“

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 06. apr 2018 09:21Uppfært 06. apr 2018 10:43

„Ég ólst upp við skíðamennsku og finnst þetta skemmtilegt, sérstaklega í núverandi rekstrarformi,“ segir Marvin Ómarsson, forstöðumaður skíðasvæðisins í Oddsskarði, en hann er í yfirheyrslu vikunnar.


Skíðaveturinn fer að líða undir lok, en páskavertíðin markar oft lok hans. Aðspurður hvernig veturinn í Oddsskarði hefur gengið fyrir segir Marvin; „Hann var töluvert erfiður veðurfarslega séð, miklar tilfæringar á snjó, oft rok og úrkoma.“

Páskadagskráin í Oddsskarði var vegleg og veðurguðnirnir sanngjarnir. Vel hefur verið látið af tónleikum þar sem Úlfur, Úlfur spilaði í munna gömlu Oddsskarðsgangnanna á föstudaginn langa.

„Tónleikarnir gengu mjög vel þó svo að við höfum kýlt á þá með stuttum fyrirvara, ég hef í það minnsta ekki heyrt annað en að fólk hafi haft gaman af þessu. Það er aldrei að vita hvort við gerum svona aftur og það þyrfti ekkert endilega að vera bundið við páska.“

Marvin segist merkja mun á skíðamennskunni undanfarin ár. „Ég held það sé ekki beint aukning, en það er breyting. Þetta snýst orðið meira um útivist fjölskyldunnar heldur en keppnisíþrótt. Það er í það minnsta aukning, bæði á ferðamönnum og almenningi hjá okkur.“

Fullt nafn: Marvin Ómarsson.

Aldur: 36.

Starf: Rekstrarstjóri/forstöðumaður.

Maki: Nei.

Börn: Dóttir, Ylfa Mjöll.

Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú varst ungur? Úff, sennilega bara flottur og frábær.

Hvert er uppáhalds lagið þitt? Á kannski ekkert uppáhalds, en til dæmis Rebell Yell með Billy Idol.

Skíði eða snjópretti? Bæði.

Púður eða harðfenni? Púður.

Drauma skíðaferð? Er ekkert voða spentur fyrir að fara í skíðaferð þar sem maður vinnur við þetta, en auðvitað væri það í Oddsskarð. Ég er meira svona „veiðiferða-týpan“.

Hver er þinn helsti kostur? Er svolítið „spontant“ og stekk af stað. Lífið er partý – ekki vera í fýlu.

Hver er þinn helsti ókostur? Sama og í kostur, er svolítið „spontant“ og stekk af stað – svo hugsa ég bara, fokk, hvað er ég búinn að koma mér í. Hef ekki enn fundið þessa línu sem sumir þora ekki yfir.

Hver er uppáhaldsstaðurinn þinn á Austurlandi? Svarthamrar.

Hvaða árstíð heldur þú mest upp á og af hverju? Allt árið, það er svo fjölbreytilegt.

Hvað eldar þú oft í viku? Fer eftir árstíð, 2-7 sinnum.

Ef þú fengir að hitta hvaða persónu úr mannkynssögunni sem væri, hver yrði fyrir valinu? Þessi blessaði Jesú sem allir halda svo uppá og segja honum að hætta þessari vitleysu.

Hvaða kost í fari einstaklinga kannt þú helst að meta? Heiðarleika og hreinskilni. Ef þú hefur eitthvað að segja, segðu það þá við mig, ekki ekki vera tuða útí horni.

Hvað er leiðinlegasta húsverkið þitt og af hverju? Taka til í skápum held ég. Það er bara svo hentugt að loka þeim og sjá ekki ruslið.

Settir þú þér áramótaheit? Nei.

Hver er þín helsta fyrirmynd? Æ, veit ekki, sennilega mundi ég bara segja hann faðir minn.

Topp þrjú á þínum „Bucket list“? Skjóta gíraffa (veit ekki afhverju) svo eitt og annað leyndó.

Duldir hæfileikar? Já.

Mesta afrek? Dóttir mín, Ylfa Mjöll.