
Helgin: Jazzmessa á Eskifirði
Sameiginlegur kirkjukór Stöðvarfjarðar og Breiðdalsvíkur, ásamt kór Norðfjarðarkirkju, hljóðfæraleikurunum og einsöngvara flytja Kórverkið „A Little Jazz Mass“ eftir Bob Chilcott í Tónlistarmiðstöð Austurlands á Eskifirði á sunnudag. Á Seyðisfirði verður gengið gegn sjálfsvígum og nágrannaslagur verður í annarri deild karla í knattspyrnu.Maðurinn á bakvið tónleikana er Daníel Arason, organisti á Stöðvarfirði og Breiðdalsvík síðustu tíu ár og á Norðfirði í vetur. „Mér þótti því tilvalið að stefna að tónleikum með báðum þessum kórum,“ segir Daníel sem æft hefur kórana sitt í hvoru lagi í vetur.
„Mig hefur lengi langað til að láta flytja verkið A Little Jazz Mass sem ég held mikið upp á. Kórarnir tóku vel í þessa hugmynd mína sem nú er að verða að veruleika.“
Fleiri kórtónleikar verða í boði um helgina, Kvennakór Hornafjarðar syngur í Egilsstaðakirkju klukkan 20:30 í kvöld
Á Seyðisfirði verður aðfaranótt laugardags gengið úr myrkrinu í ljósið, í samvinnu við Pieta Ísland, samtök gegn sjálfsvígum. Gangan er engin til að minnast þeirra sem tekið hafa eigið líf og hvetja til opinnar umræðu um hættuna á sjálfvígum. Lagt verður af stað klukkan fjögur í nótt frá íþróttahúsinu.
Hátíðin List án landamæra heldur áfram um helgina. Sýningarnar sem opnuðu voru í Sláturhúsinu á Egilsstöðum og Skriðuklaustri um síðustu helgi standa fram yfir helgi. Þá verður Aron Kale plötusnúður á Feita fílnum í kvöld.
Í Hússtjórnarskólanum á Hallormsstað verður vorsýning útskriftarnema á morgun milli klukkan 13 og 15.
Íbúafundur um deiliskipulag á miðbæjarsvæði Djúpavogs verður á Hótel Framtíð klukkan 17:00 í dag. Boðið verður upp á að upplifa skipulagið í gegnum gagnvirkan sýndarveruleika og verður opið fyrir það til klukkan níu í kvöld.
Nágrannaslagur verður í annarri deild karla í knattspyrnu þegar Fjarðabyggð tekur á móti Leikni á Norðfjarðarvelli klukkan 19:15 í kvöld. Á morgun tekur Huginn á móti nýliðum Kára á Fellavelli en Höttur leggur upp í langferð og heimsækir Vestra á Ísafjörð. Liðin mættust í síðustu umferðinni í fyrra þar sem Höttur vann og tryggði þar með sæti sitt í deildinni. Einherji hefur leik í þriðju deild og heimsækir KV á morgun.
Útgáfugleði bókarinnar 261 dagur eftir Kristborgu Bóel Steindórsdóttur, blaðamann Austurfréttar/Austurgluggans, verður á Sólon í Reykjavík klukkan 17:00 í dag. Bókin byggir á dagbókarskrifum Kristborgar í kjölfar sambandsslita hennar við seinni barnsföður sinn árið 2015. Skrifunum er ætlað að opna inn í heim sársauka og erfiðleika sem fylgt geta sambands- og hjúskaparslitum.
Helgin ber líka keim af því sveitarstjórnarkosningar eru í nánd en í boði eru margvíslegir viðburðir á vegum framboðanna svo sem fjölskyldusamkomur, málefnafundir og opnun kosningaskrifstofa.