Helgin: Kraftakeppni reynir á alhliða styrk

Kraftakeppnin Austfjarðatröllið hefst á Vopnafirði í kvöld og lýkur á Breiðdalsvík á sunnudag. Margir af sterkustu mönnum landsins taka þátt í keppninni sem reynir líkt og aðrar keppnir á alhliða styrk. Um helgina fer einnig fram gleðiganga á Seyðisfirði, partý í Berufirði og ný sýning opnar á Skriðuklaustri.

„Það er ekki nóg að lyfta bara í einni grein. Kraftakeppnir eru byggðar upp þannig að það er prófaðar alls konar útgáfur af styrk, sprengikraftur, hrár styrkur, vöðvaúthald og úthald,“ segir Magnús Ver Magnússon, fyrrum sterkasti maður heims sem heldur utan um keppnina.

Aflraunakeppnin Austfjarðatröllið er haldið annað hvert ár, en hitt árið fer Norðurlandsjakinn fram.

Magnús Ver var að lesta sendiferðabíl sem ekur austur með búnað keppninnar þegar Austurfrétt hafði tal af honum í gærkvöldi en komið er með þau fjölbreyttu tæki sem ýmist þarf að lyfta, ganga með eða kasta.

Keppnin hefst við Kaupvang á Vopnafirði klukkan 18 í kvöld þar sem keppt verður í kútakasti, þar sem kasta þarf þungum kút eins langt og hægt er og álkubbapressu. Þar þarf að lyfta 110 eða 90 kg álkubb eins oft og hægt er upp fyrir höfuð.

Næstu greinar verða í Norðurgötunni á Seyðisfirði klukkan ellefu á laugardag en þar verður keppt í drumbalyftu og reynt við Atlasstein, en það er kúlusteinn sem þarf að koma yfir slá eins oft og hægt er. Klukkan fimm um daginn verður keppt á Eskifirði við Eskjutúnið í réttstöðulyftu og bóndagöngu.

Keppninni lýkur svo á Breiðdalsvík á sunnudag. Við Bifreiðaverkstæði Sigursveins verður keppt í bíldrætti klukkan ellefu og við brugghús Beljanda fara fram steinatök á hádegi.

Sjö keppendur mæta til leiks, þar af tveir erlendis. Í hópnum er einn austfirðingur, Eyþór Ingólfsson Melsteð. „Hann heldur uppi heiðri Austfirðinga síðan ég hætti,“ segir Magnús Ver, sem er uppalinn Seyðfirðingur.

Hann lofar líflegri keppni um helgina. „Þetta verður skemmtileg og drengileg keppni. Alveg sama hvernig viðrar þá leggja þessir strákar allt sitt í þetta.“

Gleðiganga, tónleikar og listsýning

Klukkan fjögur í dag opnar Örn Þorsteinsson, myndhöggvari og málari, sýningu ´anýjum verkum í gallerí Klaustri að Skriðuklaustri. Sýninguna nefnir hann Ferðamyndir - Travel Pieces. Á henni sýnir Örn litla skúlptúra steypta í brons, póleraða og patíneraða, ásamt frummyndum úr plastefnum og grænlenskum kljásteini auk nokkurra stærri verka.

Örn Þorsteinsson útskrifaðist úr Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1971 og stundaði einnig nám í Stokkhólmi. Hann hefur unnið að listsköpun sinni í tæp 50 ár og er m.a. þekktur fyrir formfagra skúlptúra sem sækja í klassíska höggmyndahefð 20. aldar. Verk Arnar hafa verið sýnd víða um heim en þetta er fyrsta einkasýning hans á Austurlandi. Hún stendur út ágúst.

Á Seyðisfirði verður gengin árleg gleðiganga á laugardag. Gangan fer af stað úr Norðurgötunni klukkan 14:00, á sama tíma og ganga hinsegin daga í Reykjavík.

Þá stendur hljómsveitin FM Belfast fyrir árvissri gleði sinni í Havarí að Karlsstöðum í Berufirði á laugardagskvöld og má búast við að þar verði dansað langt fram á nótt.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.