Helgin: „Sumar lélegar myndir eru mjög góður brandari“
Eitt og annað er um að vera á Austurlandi um helgina. Á Eskifirði stendu B-myndahópur Kvikmyndasýningafélags Austurlands fyrir bíósýningu á laugardagskvöld.
Til stendur að sýna myndina Samurai Cop en í auglýsingu segir að hún sé á flestum listum talin ein af verst gerða mynd alheimsins. Kristin Þór Jónasson fer fyrir B-mynda hópnum sem vill reyna að sýna lélegar myndir reglulega í Valhöll. „Sumar lélegar myndir er mjög gaman að horfa á. Maður hefur kannski ekki þolinmæði til að horfa á allar lengi en margar eru bara mjög góður brandari. Þessi sem við erum að sýna núna er til dæmis svo svakalega illa gerð, fólk með hákollu í einu atriði og svo gleymist hún því næsta og svoleiðis.“
Nýlega var Kvikmyndasýningafélag Austurlands stofnað með það að markmiði að efla kvikmyndasýningar. „Við erum í Valhöll á Eskifirði og viljum efla kvikmyndasýningar á Austurlandi. Þessi B-myndahópur er svona undirhópur, við erum nokkrir þar sem höfum áhuga á B-myndum og þessum gömlu myndum. Við ætlum að prófa þessa sýningu núna og sjá hvernig þetta gengur. Þetta er ekki alveg eins og venjulegt bíó, það verður opinn bar og svona. Við viljum sjá hvernig fólk tekur í þetta. Ég held að það ætti alveg að vera grundvöllur fyrir því að sýna þessar lélegu myndir,“ segir Kristinn.
Ganga gegn sjálfsvígum, kórtónleikar og fuglaskoðun
Á Seyðisfirði verður gengið Úr myrkrinu í ljósið í nótt og hefst gangan klukkan 3:00. Gangan er í minningu þeirra sem látist hafa í sjálfsvígi og til að efla von þeirra sem eiga um sárt að binda vegna vanlíðanar, sjálfsvígshugsana og sjálfsskaða. Píeta Samtökin standa nú fyrir göngunni sem nú er haldin í fjórða sinn en að þessu sinni er gengið á fjórum stöðum á landinu auk Seyðisfjarðar í Reykjavík, Akureyri, og Ísafirði. Gengið er til styrktar Píeta samtökunum sem bjóða nú ókeypis úrræði fyrir fólk í sjálfsvígshugleiðingum, með sjálfsskaða og aðstoð fyrir aðstandendur og þá sem misst hafa ástvini í sjálfsvígi.
Kvennakórinn Héraðsdætur fagnar komu vorsins með tónleikum í Tónlistarmiðstöðinni á Eskifirði á laugardaginn. Stjórnandi er Drífa Sigurðardóttir og Tryggvi Hermannsson sér um undirleik. Tónleikarnir hefjast klukkan 17:00.
Á laugardaginn standa Náttúrustofa Austurlands og Ferðafélag Fjarðamanna fyrir fuglaskoðun og -talningu á Norðfirði og Reyðarfirði. Mæting er 12:30 við Leiruna í Norðfirði og kl. 13:30 við Andapollinn á Reyðarfirði. Sérfræðingar Náttúrustofu stjórna talningu og koma með „fuglaskóp“ fyrir þátttakendur.