Helgin: Um hundrað manns koma að tónleikunum

„Atli Heimir kemur sjálfur austur á tónleikana á sunnudaginn og það er okkur svo sannarlegur heiður,“ segir Guðrún Lilja Magnúsdóttir, starfsmaður hjá Menningarstofu Fjarðabyggðar, en austfirskt tónlistarfólk á öllum aldri flytur fjölbreytta tónlist eftir Atla Heimi Sveinsson á tvennum tónleikum um helgina. Tilefnið er áttræðisafmæli Atla Heimis sem var þann 21. september síðastliðinn.



Á tónleikunum verður stiklað á stóru í verkum Atla Heimis þar sem fjölbreytileiki tónsköpunar hans fær að njóta sín. Fram kona einsöngvarar, kórar, flutt verða einleiksverk, tilraunaverk og kammerverk svo eitthvað sé nefnt. Tónlistarstjórn er í höndum Suncönu Slaming. Um hundrað manns koma að tónleikunum á einn eða annan hátt, en það er Tónlistarmiðstöð Austurlands sem heldur utanum verkefnið ásamt Suncönu. Verkefnið er styrkt af Uppbyggingarsjóði Austurlands. 

Fyrri tónleikarnir verða í Egilsstaðakirkju á laugardaginn klukkan 20:00 en þeir nefnast Jónasarlög, en þar verða flutt lög Atla Heimis við texta Jónasar Hallgrímssonar. Þar koma fram einsöngvararnir Árni Frey Friðriksson, Nanna Halldóra Imsland, Sigurlaug Björnsdóttir og Valdimar Másson. Þá leikur Kammersveit með í verkunum, en hana skipa Berglind Halldórsdóttir á klarinett, Charles Ross á fiðlu, Páll Ivan Slamnig á kontrabassa og Suncana leikur á píanó ásamt því að vera tónlistarstjóri.

Seinni tónleikarnir verða í Tónlistarmiðstöð Austurlands á Eskifirði á sunnudaginn klukkan 17:00 en þeir nefnast Í gegnum tíðina. Þar koma fram kór Reyðarfjarðarkirkju, Kammerkór Egilsstaðakirkju auk þess sem barnakór Fáskrúðsfjarðarskóla og kvennakórinn Vesele Babe frá Egilsstöðum syngja saman. Þá mun Blásarasveit Austurlands koma fram, Blásarakvintettinn sem skipaður er meðlimum frá Austurlandi og Norðurlandi, ásamt Sóleyju Þrastardóttur sem spilar einleik á flautu. Svanur Vilbergsson spilar einleik á gítar og Sigurlaug Björnsdóttir spilar einleik á þverflautu.

„Margir eru að halda tónleika til heiðurs Atla Heimis þessa dagana. Það langaði okkur líka að gera, bæði honum til heiðurs og okkur til skemmtunar. Það sem heillar mig við tónlist Atla Heimis er krafturinn, innileikinn og húmorinn. Tónlistin hans er aðgengileg og óaðgengileg, fegurð hennar, fjölbreytileiki og snilld hennar er ótrúleg,“ segir Suncana. Allir eru velkomnir og aðgangseyrir enginn.

Hátíðarmessa í Áskirkju
Á sunnudaginn klukkan 14:00 verður hátíðarmessa í Áskirkju í Fellum þar sem 120 ár eru liðin frá vígslu kirkjunnar. Prófastur Austurlandsprófastsdæmis prédikar, prestar Egilssaðaprestakalls þjóna ásamt sr. Láru G. Oddsdóttur fv. sóknarpresti.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.