Skip to main content

Helgin: „Við höfum aldrei séð markaðinn eins stóran og í fyrra“

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 14. des 2018 13:54Uppfært 14. des 2018 14:53

Hinn árlegri jólamarkaður Jólakattarins, sem gjarnan hefur verið kenndur við gróðarmiðstöðina Barra, verður um helgina í húsnæði sem áður hýsti Barra. Viðburðir helgarinnar litast eðlilega af því að jólin eru á næsta leyti.


„Þetta hófst allt með því að við tókum okkur saman og fórum að selja jólatré og síðan hefur þetta undið svona rækilega upp á sig,“ segir Bergrún Arna Þorsteinsdóttir, ein þeirra sem kemur að skipulagningu Jólakattarins.
 
Markaðurinn verður á morgun, laugardag, milli klukkan 10:00 og 16:00. „Við höfum aldrei séð markaðinn eins stóran og í fyrra, en þá komu hátt í 3000 gestir. Í ár eru söluaðilar um 60 og koma allt frá Akureyri til Hafnar í Hornafirði. Hægt er að kaupa jólatré, matvöru, handverk, fatnað og ýmislegt annað. Við erum spennt fyrir morgundeginum, enda hefur jólamarkaðurinn fyrir löngu skipað sér fastan sess í jólaundirbúningnum á Héraði og annarsstaðar á Austurlandi.“
 
Jólasýning Hússtjórnarskólans á Hallormsstað

Hin árlega jólasýning nemenda haustannar í Hússtjórnarskólanum á Hallormsstað verður á sunnudaginn milli klukkan 13:00 - 15:00.  Nemendur sýna afrakstur annarinnar og bjóða einnig upp á jólasmákökur og jóladrykk. 
 
Ljóðakaffi í Bókaffi 

Ljóðaskemmtun verður í Bókakaffi í Fellabæ á morgun, laugardag klukkan 15:30. Steinunn Ásmundsdóttir, Stefán Bogi Sveinsson og Ágústa Ósk Jónsdóttir flytja eigið efni. Síðari hluti dagskrárinnar verður helgaður minningu Þorsteins Valdimarssonar. 
 
Jól með Bach í Egilsstaðakirkju

Kammerkór Egilsstaðakirkju ásamt hljómsveit, flytur kantötu nr. 36 (Schwingt freudig euch empor) í heild sinni, auk valdra kafla úr öðrum kantötum og verkum eftir Johann Sebastian Bach á sunnudaginn klukkan 16:00. Stjórandi er Torvald Gjerde.