„Hlaðvarpið heitir Heimsendi af augljósum ástæðum”

„Formið er mjög frjálslegt og efnistökin líka. Við erum enn að þróa þetta en vonandi mun sem mest rúmast í Heimsenda í framtíðinni,” segir Jón Knútur Ásmundsson á Reyðarfirði, en hann stendur að hlaðvarpinu Heimsenda, ásamt eiginkonu sinni Esther Ösp Gunnarsdóttur.


Jón Knútur og Esther settu fyrsta þáttinn af Heimsenda í loftið í byrjun apríl, en nú eru þeir orðnir fjórir talsins. „Við höfum lengi ætlað okkur að fara af stað með hlaðvarp. Ég hef sinnt dagskrárgerð í mismiklum mæli síðan 2005, aðallega fyrir Rás 1 og gerði eina misheppnaða tilraun til hlaðvarps fyrir u.þ.b. 10 árum. Þá var miðillinn enn í mótun og sló ekki gegn fyrr en löngu síðar.

Esther hefur hins vegar orðið dyggur hlustandi alls kyns hlaðvarpa á síðustu árum og ákvað að nú skyldum við láta slag standa og kýla á þetta. Hlaðvarpið heitir Heimsendi af augljósum ástæðum, við erum á hjara veraldar og heimurinn á heljarþröm,” segir Jón Knútur.


Efnisvalið er austfirskara en gengur og gerist
Flestir viðmælendur Heimsenda eru austfirskir. „Það er auðvitað ákveðin sérstaða og efnisvalið er austfirskara en gengur og gerist í hlaðvarpsveröld. Við viljum þó fyrst og síðast fjalla um það sem við höfum áhuga á og tala við skemmtilegt fólk, hvaðan svo sem það kemur. Við höfum sett okkur nokkrar óformlegar reglur sem hafa áhrif á efnistökin fremur en efnisvalið. Við viljum til dæmis klippa upptökurnar sem minnst til og hafa þetta afslappað og kærulaust. Sjálfur er ég þágufallssjúkur og reyni ekki að fela það með einhverjum klippigöldrum. En þetta er svo sem ekkert algilt og ef efnið kallar á meiri pródúseringu þá bara pródúserum við. Við gerum það sem við erum í stuði til að gera hverju sinni,” segir Jón Knútur.


Hlaðvarpið svipuð bylging og bloggið á sínum tíma
Hlaðvarpið er vaxandi miðill, en hverja telur Jón Knútur ástæðu þess vera? „Við lifum á tímum „sundrungar” í svo mörgum skilningi, allir elta sín sérviskulegu áhugamál og það eru til hlaðvörp um alla skapaða hluti. Meginstraumsfjölmiðlar geta ekki sinnt öllum þessum sérviskupúkum og hlaðvarpið er virðist vera svarið.

Þá vex þetta líka vegna þess að þetta form er aðlaðandi fyrir allskonar dagskrárgerðarfólk. Margir hlaðvarparar hafa enga reynslu af þáttagerð en láta samt vaða og það er svo skemmtilegt. Þetta hefur aðdráttarafl fyrir annan hlustendahóp en þann sem hlustar á hefðbundið útvarp og í vissum skilningi er þetta svipuð bylting og bloggið var á sínum tíma. Allt í einu gátu allir skrifað texta til opinberrar birtingar – þú þurftir ekki lengur að skrifa lesendabréf í Moggann til að láta ljós þitt skína. Í Heimsenda getum við gert nákvæmlega það sem okkur langar að gera. Við þurfum ekki að bera hugmyndirnar undir einhverja dagskrárstjóra. Þessu sjálfstæði fylgir frelsi og veldur því að maður byrjar að fá annars konar hugmyndir að þáttum - hugmyndir sem maður hefði mögulega annars ekki fengið.”

Einhverjir virðast vera að hlusta
Nú hafa verið sendir út fjórir þættir af Heimsenda. Hefur hlustendahópurinn vaxið jafnt og þétt? „Við fylgjumst ekkert voðalega vel með því ennþá enda erum við rétt að byrja. En jú, það hefur orðið einhver aukning og einhverjir virðast vera hlusta, eða að minnsta kosti vita merkilega margir að við hlaðvörpum í frístundum.”

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.