Hollvinasamtök safna fyrir hjartastuðtæki

Hollvinasamtök heilbrigðisþjónustu á Fljótsdalshéraði (HHF) eru að hefja söfnun fyrir hjartastuðtæki fyrir heilsugæslustöðina á Egilsstöðum. Markmiðið er að tækið verði komið fyrir lok árs.

„Við höfum ákveðið að hefja söfnun og byrjum í vikunni að fara í fyrirtæki á starfssvæðinu til að biðja þau um að styrkja okkur við þetta verkefni,“ segir Eyþór Elíasson, formaður samtakanna.

Um er að ræða svokallað Lifepak 15 tæki sem kostar um 2,3 milljónir króna með skjá og fylgihlutum. Tækið mun nýtast á slysavarðstofu stöðvarinnar en til þessa hefur verið treyst á hjartastuðtæki sem er í eigu Rauða krossins og staðsett í sjúkrabílum.

„Það er óviðunandi því sjúkrabíllinn er ekki alltaf inni og ekki hægt að nota tækið nema á einum stað í einu,“ segir Eyþór.

Stefnt er að því að söfnuninni verði lokið í byrjun desember þannig tækið verði komið fyrir áramót.

Auk fyrirtækja nýtist árgjald félaga í samtökunum til góðra verkefna í heilbrigðisstarfsemi á Héraði og Borgarfirði. Þannig komu samtökin að kaupum á hjólum fyrir hjúkrunarheimilið Dyngju í ár, öryggishnöppun, reiðhnakk fyrir fatlaðra og fleiru.

„Við fáum óskir um ýmis mál frá Dyngju og heilsugæslunni og reynum að sinna þeim. Samtökin hafa starfað af krafti síðan 2015 og hafa afhent yfir tíu milljónir til þessara stofnana á þessum tíma.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.