Hreint út sagt; Afmælistónleikar Hreins Halldórssonar
„Ég er með þeim galla gerður að hafa verið með einhverja tónlist í hausnum alla tíð, sem og þessa vísnagerð. Þetta er bara eitthvað sem hefur fylgt mér, er í blóðinu og þarf útrás,” segir Hreinn Halldórsson á Egilsstöðum, sem blæs til tónleika í Valaskjálf á laugardaginn, í tilefni 70 ára afmælis síns þar sem flutt verða lög og textar eftir hann.
Hreinn, sem einnig er þekktur sem Strandamaðurinn sterki, segist lengi hafa gælt við að halda slíka tónleika en ekki hafi orðið af því fyrr en nú. „Ég hugsaði um það þegar ég varð sextugur, svo 65 ára. Það var svo núna sem Bjarmi sonur minn, sem er tónlistarmaður, sagði að nú yrði ég að gera þetta, hann skyldi sjá um að útsetja lögin. Þá var ég komin með pressu og við létum verða að þessu, en ég hefði aldrei gert þetta án hans,” segir Hreinn.
Einvala lið kemur að tónleikunum, en fram koma; Bjarmi Hreinsson, Fjölnir Ólafsson, Hlín Behrens, Guðrún Sóley Guðmundsdóttir, Broddi B. Bjarnason, Róbert Elvar Sigurðsson, Karlakórinn Drífandi, Kvennakórinn Héraðsdætur, Kammerkór- og Kirkjukór Egilsstaðakirkju, Miðbæjarkvartettinn. Einnig verður samspil á harmonikkur og flautur.
Aðspurður hvort hann sjái fyrir sér að gefa tónlistina út segir Hreinn; „Það er nú ekki stefnan, en tónleikarnir verða teknir upp, kannski verður þetta bara jólagjöfin í ár.”
Tónleikarnir hefjast klukkan 17:00 eru opnir öllum og aðgangur er ókeypis.