„Hugsaði um hvað hreyfðist í skóginum“
Tveir nemar við Menntaskólann á Egilsstöðum skipta með sér fyrstu verðlaunum í samkeppni um hönnum jólakorta fyrir Hollvinasamtök heilbrigðisþjónustu á Fljótsdalshéraði í ár.„Kennarinn okkar sagði okkur að senda myndina í samkeppnina, ég vildi það ekki endilega,“ segir Alicja Wlodzimirow, pólskur skiptinemi við ME.
Hún og Ísabella Mekkín Lilly Þórólfsdóttir frá Eskifirði hlutu fyrir helgi fyrstu verðlaun í samkeppni sem hollvinasamtökin, í samvinnu við listnemabraut skólans, hafa efnt til um hönnun á jólakortum samtakanna. Þau eru seld til styrktar heilbrigðisþjónustu á Héraði. Að þessu sinni bárust 40 tillögur í samkeppnina og hafa aldrei verið fleiri.
Alicia stundar nám á stærðfræði- og eðlisfræðilínu í Póllandi en er mest í listaáföngum meðan hún er við ME. Kort hennar sýnir ferð stjarna yfir skógi og sækir hún því að vissu leyti innblástur í náttúruvísindin.
„Ég sat og hugsaði um hvað hreyfðist í skóginum. Ég vildi ekki teikna tré sem hreyfðust en það er himinn sem hreyfist. Ég hef mikinn áhuga á stjörnufræði og svona færast stjörnurnar á næturnar,“ segir Alicia.
Kort Ísabellu sýnir hund að leik í snjókomu í skógi. „Ég elska hunda og ég elska jólatré. Mér fannst mjög gaman að gera þessa mynd,“ segir Ísabella.
Ísabella er á öðru ári á félagsfræðibraut skólans. Hún sér fyrir sér að listnámið geti vel nýst henni í þeirri atvinnu sem hún velur sér. „Ég hef mikinn áhuga á sálfræði. Ég gæti vel séð fyrir mér að byrja að starfa í henni og prófa svo eitthvað annað, til dæmis listmeðferð.“