„Hver vír hefur sinn tilgang“ - Myndir

Forsvarsmenn Hammond-hátíðar á Djúpavogi setja hljómsveitum sem koma fram á hátíðinni það skilyrði að þau noti Hammond-orgelið minnst einu sinni á tónleikum sínum. Það hefur orðið mörgum sveitum hvatning til að nota hið kenjótta hljóðfæri í tónlistarsköpun sinni framvegis.

„Hátíðin í ár gekk ljómandi vel. Hún var mjög vel sótt og fjölbreytt eins og alltaf, auk þess sem veðrið var gott miðað við apríl. Allt gekk upp og allir voru kátir, ég hef að minnsta kosti ekki heyrt annað frá bæði gestum og tónlistarfólkinu,“ segir Ólafur Björnsson, stjórnandi hátíðarinnar.

Hátíðin hefur verið haldin frá árinu 2006 í tengslum við sumardaginn fyrsta sem stundum fellur á 24. apríl, daginn sem Leslie Hammond árið 1934 sótti um einkaleyfi á raforgeli sínu.

Snilld Tómasar Jónssonar kemur alltaf á óvart

Hátíðin hefur eignast sína fastagesti, bæði tónlistarmenn og gesti í gegnum árin. Meðal þeirra er orgelleikarinn Tómas Jónsson sem að þessu sinni spilaði bæði með hljómsveit Jónasar Sigurðssonar á laugardagskvöldi á Hótel Framtíð og með Lay Low í Djúpavogskirkju á sunnudeginum.

„Það kemur okkur alltaf jafn mikið á óvart hversu mikill snillingur Tómas Jónsson er á Hammond-inn. Ekki að við gleymum því á milli hátíða, heldur minnir hann okkur svo rækilega á það.“

Tómas var 18 ára árið 2011 þegar hann kom fyrst fram á hátíðinni er hann hljóp í skarðið fyrir Þóri Baldursson. „Við töldum það saman í lokin að þetta væru áttundi tónleikarnir hans á hátíðinni. Hann fer að verða húsgagn, sem er jákvætt, því við viljum hafa hann hér sem mest. Ég er nokkuð sannfærður um að hann sé einna færasti Hammond-leikari heims á sínum aldri í heiminum.

Snúið hljóðfæri með sál

Að sögn Ólafs er Tómas ekki bara fær orgelleikari heldur þekkir hann gangverk orgelsins nokkuð vel sem skiptir máli því hljóðfærið getur verið dyntótt.

„Þetta er snúið hljóðfæri með sál. Það getur slokknað á því hvenær sem er og þá þarf að ýta við vírum. Það bilar hjá okkur á hverju ári og það er aldrei það sama sem bilar.

Við reynum að ræsa orgelið reglulega yfir árið. Fyrir hátíðina í ár kom í ljós að takkinn til að kveikja á því hafði gefið sig og við gátum fengið nýjan takka.

Á tónleikunum á föstudaginn hætti Leslie-magnarinn, sem fylgir því, að snúast á annarri hraðastillingunni. Stór hluti laugardagsins fór því í að finna út úr hvað væri að – sem var ekki neitt – því magnarinn hrökk í gang þegar honum datt það í hug.

Þess vegna er okkur það mikils virði að eiga menn eins og Guðjón Viðarsson rafvirkja sem er orðinn einkar lunkinn við hljóðfærið. Hann hefur þurft að eyða nokkrum klukkustundum á hverri hátíð með Þóri Baldursson í eyranu við að lýsa því hvað geti verið að. Guðjón gæti ekki spilað lag til að bjarga lífi sínu en hann er orðinn fróður um búnaðinn.

Við eigum upprunalegu handbókina um orgelið á tölvutæku formi. Að blaða í henni er eins og að lesa handbók um rússneskt kjarnorkuver á rússnesku. Hún er á tungumáli og með myndum sem leikmaður skilur ekkert í. Inni í hljóðfærinu er mikið víravirki og hver vír hefur sinn tilgang, þess vegna erum við alltaf stressaðir þegar flytja þarf hljóðfærið til yfir helgina.“

Hvetur tónlistarmenn til að nota orgelið meira

Hátíðin er haldin til að vekja athygli á hljóðfærinu. Við fyrstu sýn eiga sumar hljómsveitirnar, til dæmis þungarokkssveitin Dimma, lítið skylt við orgelleik en skyldleikinn kemur í ljós þegar betur er að gáð.

„Við sem komum að hátíðinni stöndum í þeirri meiningu að Hammond-orgelið eigi heima í allri tónlist. Mörgum finnst hljóðfærið helst eiga heima í blús og djassi en það hefur fylgt popptónlist alla tíð.

Við spyrjum þau bönd sem við höfum áhuga á, eða vilja koma, hvernig þau ætli að leysa orgelmálin. Í sumum tilfellum ráða hljómsveitirnar til sín sérstaka orgelleikara. Dimma fékk með sér Pétur „Jesú“, við vissum ekki fyrirfram en hann hefur spilað á Hammond á plötum sveitarinnar.

Það er skilyrði að sveitirnar noti Hammond-orgelið. Við krefjumst ekki orgelsólós í hverju lagi, en það verður að vera að lágmarki einn tónn í einu lagi. Það hefur jafnvel komið tónlistarmönnunum á óvart hve vel hljóðfærið á heima í tónlist þeirra og það eru dæmi um að eftir að hafa spilað á hátíðinni hafi sveitir notað Hammond-orgelið á næstu plötu sinni.“

Þótt hátíðin í ár sé til þess að gera nýafstaðin er undirbúningur þegar hafinn fyrir þá næstu. „Við tökum 2-4 vikur í uppgjör, svo hefst undirbúningur næstu hátíðar, þótt ekki nema í hausnum á manni. Hátíðin 2020 verður sú fimmtánda í röðinni og við köllum það afmæli,“ segir Ólafur.

Myndir frá tónleikum Ensími og Jónasar Sig með Ritvélum framtíðarinnar á nýafstaðinni Hammond-hátíð.


Hammondhatid 2019 0002 Web
Hammondhatid 2019 0005 Web
Hammondhatid 2019 0018 Web
Hammondhatid 2019 0029 Web
Hammondhatid 2019 0049 Web
Hammondhatid 2019 0052 Web
Hammondhatid 2019 0064 Web
Hammondhatid 2019 0069 Web
Hammondhatid 2019 0080 Web
Hammondhatid 2019 0082 Web
Hammondhatid 2019 0085 Web
Hammondhatid 2019 0102 Web
Hammondhatid 2019 0115 Web
Hammondhatid 2019 0121 Web
Hammondhatid 2019 0130 Web
Hammondhatid 2019 0135 Web
Hammondhatid 2019 0158 Web
Hammondhatid 2019 0162 Web


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.