Kemur á Airwaves til að sjá hljómsveitir eins og Austurvígstöðvarnar
David Fricke, einn af ritstjórum bandaríska tímaritsins Rolling Stone, er afar ánægður með að hafa séð austfirsku pönksveitina Austurvígstöðvarnar á tónlistarhátíðinni Iceland Airwaves. Hann segir tónleika sveitarinnar hafa minnt hann á hvers vegna hann sæki hátíðina.„Þessi hljómsveit mun ekki koma neinum lögum á topp 10 lista en hún minnti mig á hvers vegna ég fer á hátíðina til að upplifa sveitirnar áður en þær eru fluttar út.
Um leið og hljómsveitir fara á alþjóðlega markaði breytast þær. Að sjá þær í byrjun er eins og að uppgötva nýja dýrategund,“ segir Fricke í samtali við netsjónvarp Morgunblaðsins.
Fricke hefur skrifað fyrir Rolling Stone í um 30 ár, aðallega um rokktónlist, og er meðal fastagesta tónlistarhátíðarinnar.
Í viðtali við Mbl.is ræddu Fricke og Leigh Lust, aðstoðarforstjóri plötuútgáfunnar Pledge Music, hátíðina í ár og hvernig hún væri komin aftur til upprunans. Þeir sögðu að líkt og víða annars staðar væri hipp hopp orðið ráðandi á Íslandi en hátíðin skartaði fjölbreyttari flóru heldur en víða þekkist.
Þeir ræddu einnig fullyrðingar um dauða rokksins, sem Lust sagði einfaldlega vera orðið að neðanjarðarhreyfingu með marga efnilega sprota sem senn gætu fundið sér upp á yfirborðið.
Í þeirri umræðu kom Fricke inn á Austurvígstöðvarnar, sem hann átti reyndar í mesta basli með að bera fram fram.
„Við fólkið sem segir að rokkið sé dautt segi ég að það geti elta það sem það vill, ég ætli að finna það sem ekki er dautt. Ég sá þessa áhugaverðu hljómsveit, sem ég veit ég get ekki borið fram nafnið á, sem spilar pönkrokk með pólitískum textum.
Mér var bent á að söngvarinn væri prestur og hann semji þessa pólitísku texta um það sem er að gerast í dag eins og menn gerðu þegar pönkið kom fram á sínum tíma.“