Knúsast fyrsta kvöldið á Kærleiksdögum
Kærleiksdagar verða haldnir á Breiðdalsvík um helgina. Þar er lögð áhersla á óhefðbundnar meðferðir og kærleiksríka samveru. Stjórnandi segir þátttakendur opnari fyrir þátttöku í samverustundunum en þeir voru þegar dagarnir voru fyrst haldnir fyrir rúmum 20 árum.„Kærleiksdagarnir snúast um kærleiksrík samskipti og að við séum opnari,“ segir Vigdís Steinþórsdóttir, stjórnandi daganna.
Þátttakendur byrja í kvöld að tínast til Breiðdalsvíkur en formleg dagskrá hefst á morgun og stendur fram til seinni parts sunnudags. Hefð er fyrir að gestir byrji fyrsta kvöldið á að faðmast, en sú afhöfn hefur tekið nokkrum breytingum þau ríflega 20 ár sem Vigdís hefur haldið Kærleiksdaga.
„Það er ótrúlegur munur á hvernig fólk knúsast. Fyrstu árin treystu sumir sér ekki í þetta og flúðu út, eða lágmörkuðu snertinguna og slepptu eins hratt og þeir gátu. Núna taka þessu allir sem sjálfsögðum hlut,“ segir hún.
Um helgina eru bæði í boði fyrirlestrar og einkatímar. Nokkrir Austfirðingar eru í hópi þeirra sem leiða stundir. Solveig Friðriksdóttir, sem býr á Stöðvarfirði, verður með jóga, Bjarni Steinar Kárason, uppalinn Stöðfirðingur verður með nudd og fyrirlestur um samspil hugar og líkama og Sigríður Þorbergsdóttir, sem einnig á ættir að rekja austur, verður með fyrirlestur um jurtir og líkama auk þess að bjóða upp á strokumeðferð.
Ekki þarf að taka þátt í allri dagskránni heldur er hægt að mæta á staka viðburði, til dæmis kakóathöfn á föstudag. „Þetta þykir spennandi og vinsælt. Við verðum með hreint kakó og manneskju sem leiðir þá athöfn og útskýrir fyrir okkur uppruna kakósins, hvernig það virkar og stýrir slökun í lokin.“
Vigdís segist standa fyrir kærleiksdögum að jafnaði fjórum sinnum á ári víðsvegar um landið. Þetta er í fjórða skiptið sem hún kemur austur til Breiðdalsvíkur. „Þetta byrjaði með því að Friðrik á Bláfelli bauð mér að koma og ég sló til því Austfirðirnir höfðu til þess orðið útundan.“