Kunni ekkert í hönnun eða saumaskap

„Í alvöru, ég kunni ekkert þegar ég fór af stað, hafði aldrei lært neitt um hönnun eða saumaskap,” segir María Lena Heiðarsdóttir Olesn frá Egilsstöðum, eigandi fyrirtækisins M Fitness, en hún hannar og selur íþróttaföt undir því nafni sem njóta mikilla vinsælda.

Segja má að María Lena hafi nánast fengið áhuga á markaðsfræði og verslunarrekstri með móðurmjólkinni en móðir hennar, Björk Birgisdóttir Olsen, er eigandi tískuverslunarinnar River á Egilsstöðum. Einnig hefur María Lena alltaf haft óþrjótandi áhuga á íþróttum og er einkaþjálfari frá ISSA í Bandaríkjunum.

„Ég byrjaði mjög ung að vinna, bæði leysti ég mömmu af í búðinni og þjálfaði fimleika og fótbolta. Þegar mamma flutti verslunina í núverandi húsnæði fór ég að hjálpa henni meira, sá um reksturinn meðan hún fór í innkaupaferðir erlendis og fékk einnig stundum að fara með í þær. Ég hef lært svo mikið af henni, en það var svo dýrmæt reynsla fyrir mig að fá að vasast í þessu með henni og sjá hvað virkar og virkar ekki.

Ég man að ég sagði alltaf við pabba að mig langaði að stofna fyrirtæki, ég var alveg með það á heilanum. Ég var þó alls ekki viss hvað mig langaði til að gera. Þó svo ég vissi upp á hár hvernig ætti að reka fataverslun var það ekki það sem mig langaði, mig langaði að tengja reksturinn við íþróttir á einhvern hátt. Hugmyndin var alltaf í huga mér, mér fannst vanta flott íþróttaföt á markaðinn. Þetta var þó meira eins og fjarlægur draumur, segir María Lena sem fór að fikta sig áfram haustið 2016.

„Ég byrjaði á því að fara á netið og finna mér verksmiðju í Kína, í alvöru, ég „gúgglaði” bara, en það er verksmiðjan sem í dag er ein þeirra sem framleiðir mest fyrir mig. Þó ég vissi ekkert hvað ég var að gera hafði ég hins vegar mjög sterkar skoðanir á því hvernig ég vildi hafa fötin. Þau áttu að vera þægileg, uppháar buxur sem hvaða konu sem er gæti liðið vel í. Buxur sem haggast ekki, en mér finnst alveg óþolandi að fara út að hlaupa og vera í buxum í ræktinni sem leka niður. Þannig að ég byrjaði bara. Teiknaði upp flíkur eins og mig langaði að hafa þær, sendi myndir út og fékk efnisprufur til baka. Þetta er allt samvinna sem tók tíma að læra hvernig virkar. Mér fannst einnig vanta skemmtilega íþróttatoppa á markaðinn. Fleiri liti og bönd í bakið og það er einmitt það sem endurspeglar mína hönnun á þeim, en enginn þeirra er alveg hefðbundinn, allir með böndum í bakið, mynstri eða í fallegum litum,“ segir María Lena en fyrsta fatalínan samanstóð af tvennum buxum og tvennum toppum.

Hugmyndin þótti alveg galin
María Lena segir það hafa verið hálf óraunverulega tilfinningu að taka á móti fyrstu flíkunum sem hún hannaði síðla árs 2017.

„Það var alveg rosalega skrítið en á sama tíma alveg mögnuð tilfinning. Þarna var ég einstæð og blönk móðir, sem var að reyna að safna pening til þess að geta flutt aftur suður. Ég setti hins vegar hverja einustu auka krónu sem mér áskotnaðist á þessum tíma beint í verkefnið. Ég man að foreldrum mínum þótti þetta alveg galið, já og bara út í hött og ég skil þau alveg. Ég var hins vegar svo ánægð með fyrstu sendinguna að ég ákvað að láta vaða. Ég er mjög stolt af þessu og ánægð með að hafa fylgt eigin sannfæringu,“ segir María Lena.

Sambýlismaður Maríu Lenu, Hannes Örn Ívarsson, rekur fyrirtækið með henni í dag, sem hún segir reksturinn ganga vonum framar. „Þetta var gífurlega mikill kostnaður fyrst og það hafa oft komið tímar þar sem ég hef spurt mig hvað í fjandanum ég sé að hugsa og líður eins og ég sé búin að fleygja frá mér peningunum. Þetta hefur líka kostað blóð, svita og tár og ég held að fólk almennt geri sér ekki grein fyrir því hve mikil vinna þessi uppbygging hefur verið. Ég geri allt sjálf og vinn oftast rúmlega tólf tíma á dag. Sem betur fer á ég gott bakland og það er alveg ómetanlegt,“ segir María Lena, en í dag samanstendur M Fitness af breiðri fatalínu fyrir konur, auk minni línu fyrir karla og glænýrri krakkalínu og fæst bæði á heimasíðu M Fitness og í verslunum, bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni.


„Það er pláss fyrir alla”
María Lena er duglega að sýna vörurnar á samfélagsmiðlum og þar fær hún bæði viðbrögð frá viðskiptavinum og einnig skilaboð frá fólki sem langar að láta drauma sína rætast en veit ekki hvernig það á að snúa sér.

„Fólk er almennt hrætt við að prófa eitthvað nýtt og það er alveg skiljanlegt. Ég hvet þó alla sem hafa hugmyndir eða sterka löngun til að kýla bara á það, maður veit aldrei fyrr en maður prufar. Ég gerði líka allskonar mistök áður en ég fór í þetta verkefni. Ég reyndi til dæmis að flytja inn braselíska íþróttafatalínu en það gekk ekki upp og á því ævintýri tapaðist slatti. Mistök og að prófa sig áfram er stór hluti af því að uppskera. Bæði er það lærdómsríkt ferli, auk þess sem maður þarf líka að upplifa að á móti blási til að kunna að meta hitt. Það eina sem skiptir máli er að halda bara ótrauður áfram þrátt fyrir allt.

Uppáhalds kvótið mitt á íslensku er: Meistarar eru búnir til, þeir fæddust ekki meistarar. Ástæðan fyrir því hversu magnað mér finnst þetta er að við stönudm öll jöfn. Við getum öll gert það sem við viljum, þetta er aðeins spuringin um það hvað við ætlum að leggja á okkur. Ég trúi á alla og það er pláss fyrir alla til þess að ganga vel, sama hversu galnar hugmyndirnar virðast vera. Ef við viljum eitthvað nægilega mikið og trúum á okkur sjálf þá er allt hægt, við getum allt sem við ætlum okkur,“ segir María Lena.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.