
Langar að tengja ljósmyndaáhugann og hestamennskuna saman
„Síðustu daga kosningarinnar var mikil barátta milli minnar myndar og annarar, en í lokin hafði mín yfirhöndina,“ segir Arney Ólöf Arnardóttir, 16 ára Héraðsbúi, sem hlaut flest atkvæði í ljósmyndasamkeppni Equsana á Íslandi.
Equsana er vörumerki innan SS og býður meðal annars uppá fóður fyrir hross, ásamt fatnaði fyrir knapa og öðrum búnaði fyrir hesta. Equsana stóð fyrir hestamyndasamkeppni fyrir páska, en alls voru sendar inn 229 myndir. Lagt var upp með að tvær stæðu uppi sem sigurvegarar, annars vegar mynd valin af dómnefnd og hins vegar sú sem hlyti flest atkvæði í vinsældarkosningu. Að lokum fór keppnin á þá leið að þremur myndum var skipt á dómarasætin en mynd Arneyjar Ólafar sigraði vinsældakosninguna.
„Það snýst allt um hesta“
Arney Ólöf er alin upp við hestamennsku, en hún býr í Húsey á Fljótsdalshéraði. „Við eigum núna um 80 hesta og erum með ferðatengda hestamennsku, þannig að við lifum á hestum – það snýst allt um hesta,“ segir Arney Ólöf.
Arney Ólöf eignaðist að eigin sögn ágæta myndavél í fyrra og hefur síðan þá verið að prófa sig áfram í ljósmyndun. „Ég er að reyna að tengja ljósmyndaáhuga minn og hestamennskuna saman, ég hef gaman af því að taka myndir, en aðallega af hestum. Ég hef aðeins verið að taka myndir en langar að æfa mig og bæta mig í því.“
Hvað er það sem heillar svona við hestamyndir? „Hestar eru svo fallegir og passa svo vel inn í íslenska náttúru – það er hægt að taka mynd af hestum allsstaðar og þeir líta alltaf jafn fallega út í náttúrunni.“
Hefur fengið fyrirspurnir um að selja myndina
Mynd Arneyjar Ólafar er mjög falleg og sérstök, en í verðlaun hlaut hún vetrarreiðúlpu að eigin vali og hestaburstasett.
„Myndin er tekin í miklum snjóbyl og það stóðu líklega 60 hestar þétt saman með rassinn upp í vindinn. Ég sá að þetta yrði flott mynd og smellti af.“
Hefur Arney Ólöf fengið beiðni um að selja verðlaunamynd sína? „Já, það hafa komið nokkrar fyrirspurnir um það, kannski það sé eitthvað sem ég fer að skoða núna.“