Langar í meiri tíma og bók í jólagjöf
„Jólasýningin er uppskeruhátíð fyrir nemendur, hátíðarstund sem búið er að stefna að alla önnina,“ segir Bryndís Fiona Ford, skólameistari Hússtjórnarskólans í Hallormsstað, en þar verður hin árlega jólasýning nemenda haustannar næstkomandi sunnudag. Bryndís er í yfirheyrslu vikunnar.
Jólasýningin stendur milli klukkan 13:00 og 15:00. „Sýningin skiptir skólann miklu máli. Fólk fær tækifæri til að skoða húsnæðið, heimavistarherbergin, eiga samtal við nemendur og starfsfólk. Gamlir nemendur koma með gleði í augunum, rifja upp skemmitlegar minningar og rýna í gömlu skólaspjöldin. Skólinn ásamt Hollvinum eru einmitt að vinna í að koma spjöldunum á rafrænt form og ramma inn til sýnis í skólanum. Enn vantar nokkra árganga og því tökum við vel við ábeningum ef einhver gæti átt skólaspjald heima hjá sér,“ segir Bryndís.
Bryndís segir sýningardaginn afar hátíðlegan en að sama skapi tilfinningaþrunginn. „Nemendur gista sína síðustu nótt í skólanum fyrir jólasýningu. Í Höll skólans fer fram úskrift og njótum við samverunnar í síðasta skipti á önninni. Sýningin hefst svo klukkan 13:00 og þegar henni lýkur klukkan 15:00 er kveðjustund þar sem faðmlög og tárflóð ráða ríkjum. Síðan er haldið af stað út í lífið, jólafríið og þeirra verkefna sem bíða á komandi ári,“ segir Bryndís, en námið spannar aðeins eina önn.
Fullt nafn: Bryndís Fiona Ford.
Aldur: 39 ára.
Starf: Skólameistari.
Maki: Friðrik Þór Brynjarsson.
Börn: Engin.
Hver er tilgangurinn með þessu jarðlífi? Að lifa því og vera með þeim sem þér þykir vænt um.
Hvaða hljóð fer mest í taugarnar á þér? Smjatt.
Hvaða ósið hefur þér reynst erfiðast að hætta? Vera bogin í baki.
Hvað var í tísku þegar þú varst yngri en er það ekki lengur? Hárskraut sem var eins og keila í laginu og sett yfir tagl.
Nefndu þrennt sem þú átt alltaf í ísskápnum? Sítróna, laukur og hvítvín sem safnast upp þar sem aldrei er tími til að drekka það.
Hver er uppáhaldsstaðurinn þinn á Austurlandi? Þar sem er sjór og Hjálpleysa er yndislegt. En forréttindin eru að mæta í vinnu í fallegu umhverfi og húsnæði sem hefur góða sál.
Hver er þín helsta fyrirmynd? Amma og mamma.
Ert þú mikil húsmóðir sjálf? Já þegar ég er heima hjá mér sem er reyndar mjög sjaldan.
Hvað er leiðinlegasta húsverkið þitt og af hverju? Þrífa bílinn ef það má taka hann með í húsverk. Hann er alltaf skítugur, eilífðar verkefni.
Ef þú fengir að hitta hvaða persónu úr mannkynssögunni sem væri, hver yrði fyrir valinu? Engin, það sem er liðið er liðið.
Ef þú gætir öðlast yfirnáttúrulegan kraft, hver væri hann? Fljúga, alveg klassískt.
Hvað er einstakt við Handverks- og hússtjórnarskólann í Hallormsstað? Fegurðin við að hafa líf í húsinu og finna fyrir hversu vel öllum líður í skólanum. Húsnæðið býr yfir notalegri hlýju og góðri sál sem allri finna þegar þeir stíga inn í húsið.
Hver eru þín helstu lífsgildi? Virðing, heiðarleiki og réttlæti.
Ertu með einhverja sérstaka siði á aðventunni? Nei, nema vinna teljist til siðs.
Hvað borðar fjölskyldan á aðfangadagskvöld? Humar, rjúpu og möndluköku með mokkakremi.
Hvað langar þig að fá í jólagjöf? Tíma, hann er svo dýrmætur og eina jólabók. Það er eitthvað við það að leggjast upp í rúm á aðfangadagskvöld og lesa. Annars er ég að temja mér meiri nægjusemi á sem flestum sviðum.
Settir þú þér áramótaheit í fyrra, ef svo er, hvað var það? Nei en reyni að setja mér markmið á hverju ári; persónulegt, vinnutengt og annað.
Ætlar þú að setja þér einhver heit fyrir komandi ár? Ég bý til vekefnalista í stað heita.