Leikur allar plötur sínar á fjórum kvöldum í Fjarðarborg
„Þetta er gamall draumur að rætast. Eftir að ég var með tónleikamaraþonið í Fjarðarborg sumarið 2012 hefur mig alltaf langað að gera eitthvað svipað aftur,” segir tónlistarmaðurinn Jónas Sigurðsson, sem verður með tónleikaröðina Frá malbikinu til Milda hjartans í Fjarðarborg á Borgarfirði vikuna fyrir Bræðslu þar sem hann flytur allar sínar fjórar breiðskífur á jafn mörgun kvöldum.Sumarið 2012 hélt Jónas 19 tónleika í Fjarðarborg á 21 kvöldi. „Það var sturlað, en meðal mæting var um 150 manns á hverja tónleika og húsið var alveg troðið síðustu vikuna. Þetta var bara einhver galdur það myndaðist, einhver stemmning sem ekki er hægt að skýra. Ég hef spilað þar á tónleikum eftir þetta en það hefur alltaf kitlað mig að gera eitthvað sambærilegt aftur,” segir Jónas.
Nýjasta plata Jónasar, Milda hjartað, kom út í fyrra. „Ég hef fylgt plötinni vel eftir ásamt strákunum í bandinu, þeim Ómari Guðjónssyni, Arnari Gíslasyni, Guðna Finnssyni og Tómasi Jónssyni. Þegar við vorum svo bókaðir á Bræðsluna ræddi ég það við Ásgrím Inga og félaga í Já Sæll í Fjarðarborg hvort við gætum ekki gert eitthvað meira.
Mig hefur einnig lengi langað að flytja allar plöturnar mínar, spila öll lögin og segja sögu hverrar og einnar. Á hverri plötu eru alltaf ákveðin lög sem lifa og önnur sem manni þykir mjög vænt um en einhverra hluta vegna hverfa og maður hættir að spila. Plöturnar verða fluttar í tímaröð en hver og ein þeirra á sinn hljóm og endurspeglar pælingar frá hverjum tíma.”
Fyrstu tónleikarnir verða sunnudaginn 21. júlí. „Miðasalan fer vel af stað og það er mikil stemmning í fólki. Margir stíla fríið sitt inn á að vera á Borgarfirði um Bræðsluhelgina. Það er tilvalið að grípa tækifærið og koma aðeins fyrr, ganga á daginn og fara á tónleika á kvöldin,” segir Jónas.
Dagskráin verður sem hér segir:
Sunnudagurinn 21. júlí: Þar sem malbikið svífur mun ég dansa
Mánudagurinn 22. júlí: Allt er eitthvað
Þriðjudagurinn 23. júlí: Þar sem himin ber við haf
Miðvikudagurinn 24. júli: Milda hjartað
Miðasala fer fram hér.