Leikur allar plötur sínar á fjórum kvöldum í Fjarðarborg

„Þetta er gamall draumur að rætast. Eftir að ég var með tónleikamaraþonið í Fjarðarborg sumarið 2012 hefur mig alltaf langað að gera eitthvað svipað aftur,” segir tónlistarmaðurinn Jónas Sigurðsson, sem verður með tónleikaröðina Frá malbikinu til Milda hjartans í Fjarðarborg á Borgarfirði vikuna fyrir Bræðslu þar sem hann flytur allar sínar fjórar breiðskífur á jafn mörgun kvöldum.

Sumarið 2012 hélt Jónas 19 tónleika í Fjarðarborg á 21 kvöldi. „Það var sturlað, en meðal mæting var um 150 manns á hverja tónleika og húsið var alveg troðið síðustu vikuna. Þetta var bara einhver galdur það myndaðist, einhver stemmning sem ekki er hægt að skýra. Ég hef spilað þar á tónleikum eftir þetta en það hefur alltaf kitlað mig að gera eitthvað sambærilegt aftur,” segir Jónas.

Nýjasta plata Jónasar, Milda hjartað, kom út í fyrra. „Ég hef fylgt plötinni vel eftir ásamt strákunum í bandinu, þeim Ómari Guðjónssyni, Arnari Gíslasyni, Guðna Finnssyni og Tómasi Jónssyni. Þegar við vorum svo bókaðir á Bræðsluna ræddi ég það við Ásgrím Inga og félaga í Já Sæll í Fjarðarborg hvort við gætum ekki gert eitthvað meira.

Mig hefur einnig lengi langað að flytja allar plöturnar mínar, spila öll lögin og segja sögu hverrar og einnar. Á hverri plötu eru alltaf ákveðin lög sem lifa og önnur sem manni þykir mjög vænt um en einhverra hluta vegna hverfa og maður hættir að spila. Plöturnar verða fluttar í tímaröð en hver og ein þeirra á sinn hljóm og endurspeglar pælingar frá hverjum tíma.”

Fyrstu tónleikarnir verða sunnudaginn 21. júlí. „Miðasalan fer vel af stað og það er mikil stemmning í fólki. Margir stíla fríið sitt inn á að vera á Borgarfirði um Bræðsluhelgina. Það er tilvalið að grípa tækifærið og koma aðeins fyrr, ganga á daginn og fara á tónleika á kvöldin,” segir Jónas.

Dagskráin verður sem hér segir:

Sunnudagurinn 21. júlí: Þar sem malbikið svífur mun ég dansa
Mánudagurinn 22. júlí: Allt er eitthvað
Þriðjudagurinn 23. júlí: Þar sem himin ber við haf
Miðvikudagurinn 24. júli: Milda hjartað

Miðasala fer fram hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.