Litla Hafmeyjan frumsýnd í kvöld: Leikarar alls staðar að úr Fjarðabyggð
„Við höfum reynt að setja upp barnasýningu annað hvert ár til móts við eitthvað annað,“ segir Þórfríður Soffía Þórarinsdóttir, annar tveggja leikstjóra sýningarinnar Litlu hafmeyjunnar sem Leikfélag Norðfjarðar frumsýnir í Egilsbúð í kvöld.
Alls eru áformaðar sex sýningar og sú fyrsta verður í kvöld klukkan 19:00. Helga Ósk Snædal Þórormsdóttir leikstýrir verkinu með Þórfríði Soffíu.
„Leikferlið hefur gengið mjög vel og hópurinn er bara búinn að vera alveg frábær, aldursbilið er breitt og það er alveg æðislegt hvað allir eru miklir jafningjar þrátt fyrir það,“ segir Þórfríður Soffía.
Þórfríður Soffía segir að Litla hafmeyjan sé fimmta sýning leikfélagsins síðan það var endurvakið árið 2012. „Það hefur verið ágætis áhugi fyrir leiklist á Norðfirði, sérstaklega meðal áhorfenda, það oft erfiðara að fá fólk upp á svið. Það er samt svo skemmtilegt núna hvað við erum með mikið af nýju fólki sem við vonum auðvitað að haldi áfram að starfa með okkur, ekki bara til að leika heldur einnig allt fólkið sem er að vinna í kringum sýninguna því án þeirra væri þetta ekki hægt. Núnar erum við í fyrsta skipti með leikara allstaðar að úr Fjarðabyggð, við teygjum anga okkar alla leið á Stöðvafjörð og erum við að vona að þetta sé eitthvað sem koma skal, að leiklistaunnendur í Fjarðabyggð geti sett upp sýningar saman.“
Kemur endurnærð heim af æfingum
En, hvað er það sem er svona skemmtilegt við að taka þátt í verkefni sem þessu? „Þetta er bara svo nærandi, bæði félagskapurinn og orkan sem á sér stað. Það er bara þannig að sama hversu þreyttur maður er eftir vinnu þá kemur maður endurnærður heim og glaður heim eftir æfingu – það er bara eitthvað við þetta eitthvað sem erfitt er að útskýra, fólk verður bara að prufa að mæta og vera með.“