Losa 2100 hluti út af heimilinu í desember

„Það eru sirka fjögur ár síðan að ég sá að þetta var orðið glórulaust rugl og ég var orðinn fangi eigna minna,“ segir Ágústa Margrét Arnardóttir á Djúpavogi sem ætlar að vera með nýstárlegt jóladagatal á sínu heimili í desember.



Ágústa Margrét og maður hennar, Guðlaugur Birgisson, eiga fimm börn. Þau hafa síðustu ár unnið að því að einfalda líf fjölskyldunnar. Í stað þess að börnin fái dagatal sem inniheldur sælgæti eða ótal hluti stefnir fjölskyldan að því að losa sig við 2100 hluti af heimilinu í desember.

„Eftir að við eignuðust börnin hafa allar eigur okkar aukist alveg svakalega eins og gefur að skilja. Við erum sjö í heimili og magnið af öllu sem við áttum var orðið svo langt umfram það sem við náðum að halda utanum og skipuleggja,“ segir Ágústa Margrét.

„Að lifa mínimalískum og nægjusömum lífstíl virkar kannski vanþakklætislegt og leiðinlegt en það er þó alls ekki þannig, því að allt sem hefur tilgang og skiptir okkur máli, það eigum við. Ég kýs að kalla heimilið okkar „lifandi heimili“. Þar eru hlutirnir alltaf á ferðinni, það eru engir hlutir sem má ekki snerta eða leika sér með. Við málum, föndrum og búum til virki úr pappkössum inn í stofu, það eru í raun engin takmörk fyrir því hversu skemmtileg og skapandi við getum verið inn á heimilinu. Ef þar eru hlutir sem við höfum ekki hreyft eða notað í marga mánuði, já eða ár, þá veltum við því fyrir okkur hvort þeir eigi að vera áfram eða ekki,“ segir Ágústa Margrét.

Hefur afþakkað gjafir í þrjú ár
Það eru þrjú ár síðan Ágústa Margrét tók þá ákvörðun að afþakkaði allar gjafir til sín kringum jól.

„Ég vr rosalega tilfinningatengd hlutunum í kringum mig. Fannst ég einnig svo vanþakklát ef ég losaði mig við eitthvað sem mér var gefið. Maðurinn minn var ekki svona, honum fannst allt of margir hlutir bara íþyngja okku. Hann reyndi oft að losa okkur við eitthvað og ég fór iðulega og sótti þá til baka. Staðan var bara orðin þannig að það voru haugar út um allt hús. Ég áttaði mig loksins, spáði í þessu og las mér til um þetta, en það er ekki gerlegt fyrir neinn á heimilinu að sjá um alla þessa hluti.

Það er mikill léttir og mikið frelsi sem fylgir þessum lífstíl og hugsuninni „ég þarf ekki neitt og vil ekki neitt“. Ef fólk ætlar að gefa mér eitthvað má það að vera í formi einhverskonar samveru. Það eru ekki allir búnir að meðtaka þetta ég skil það alveg, það gerist bara í rólegheitunum. Ég fæ enn öðru hvoru gjafir sem gleðja mig innilega og það er alveg margt sem mig „langar“ í. Ég bara hugsa það vel út frá því hver tilgangurinn er og það er það sem ég vil innleiða hjá börnum mínum; vilja þau gjafir af því þær eru vinsælar, af því allir hinir fá þannig, semsagt, til að fá eitthvað eða af raunverulegum áhuga! Ég treð þessu ekki upp á börnin mín, þau fá sínar gjafir. Það er þó þannig að þeim um minna sem þau fá njóta þau meira, sér í lagi ef gjafirnar tengjast áhugamálum þeirra og lífstíl.“

Yfir 1000 hlutir inn á heimilið á aðfangadagskvöld
Ágústa Margrét segir að magn hluta sem berst inn á hvert heimili í desember sé svakalegt. „Börnin mín fá sirka tíu gjafir hvert á aðfangadag. Það eru þá 50 gjafir til þeirra og sjaldnast er einn hlutur í hverri gjöf, samanber ef þau fá til dæmis kubbakassa, þannig að fjöldi þeirra hluta sem kemur inn á heimilið í desember er ekki lengi að rjúka upp. Þá má einnig tala um pappírinn, pakkaböndin og allar pakkningarnar utan um dótið, húsið bara fyllist á aðfangdagskvöld. Þetta er ekki það eina. Svo eru það skógjafirnar, sem eru 65 á mínu heimili. Þá er einnig krafa um að allir eigi jóladagatal og nú er hægt að fá þau með allskonar hlutum á borð við LEGO, Playmo, með 24 glossum eða baðkúlum,“ segir Ágústa Margrét, en hugmyndin að jóladagatali fjölskyldunnar kviknaði einmitt þegar dóttir hennar bað um að fá eitthvad svona „dótadagatal“.

„Èg tòk umræđuna um neyslu, sòun, keppnina, þörfina og fleira og fèkk svo þà snilldar hugmynd ađ hùn myndi frekar losa sig viđ einn hlut à dag i desember. Henni fannst þađ ekki jafn fràbær hugmynd og mèr enda er hùn rosalegur safnari, ber sig saman viđ jafnaldra og tengist öllu sem hùn à miklum tilfinningaböndum, alveg eins og ég gerði sjálf,“ segir Ágústa Margrét, sem þó náði að sannfæra fjölskylduna, sem stefnir á að losa sig við 2100 hluti í desember, eða 300 hluti frá hverjum og einum heimilismeðlimi.

„Fyrst ætlaði ég bara að losa einn hlut á dag frá 1. desember og fram að jólum, á hvert okkar. Ég varpaði hugmyndinni fram á Fabebooksíðu um minimaliskan lífsstíl og var þar bent á að algengt væri að fólk tæki einn mánuð á ári og losaði um einn hlut fyrsta dag mánaðarins, tvo hluti annan dag mánaðarins og svoleiðs gengi það þar til 30, eða 31 hlutir færu síðasta dag mánaðarins. Mér þótti sú hugmynd mjög róttæk í fyrstu og hvað þá að gera það í nafni allra á heimilinu. Eftir litla umhugsun sá ég að það væri ekkert mál, hvað þá í ljósi þess að yfir 1000 hlutir koma inn bara á aðfangadagskvöld. Það er ekki hægt að stafla bara og það er ekkert vit í því að vera með fulla kassa eða skápa af dóti sem enginn notar, þá er betra að gefa heim framhaldslíf annarsstaðar.

Nú er ég búin að vera að útskýra þetta fyrir krökkunum og það merkir ekki að við ætlum að hætta að eignast hluti, eiga eða njóta. Það er allt fljótandi í hlutum sem ekki eru í notkun, hvað eru til dæmis margir stakir eða götóttir sokkar á hverju heimili. Hvað þá of litlir skór eða hvað annað. Við erum öll orðin spennt fyrir þessu og ég ætla að setja upp fjóra kassa í þvottahúsinu, einn fyrir Rauða krossinn, annan fyrir nytjamarkað og svo framvegis. Allir verða þeir að sjálfsögðu skreyttir eins og jóladagatali sæmir og þangað munum við setja hlutina við hátíðlega athöfn dag hvern,“ segir Ágústa Margrét.

Meiri samverutími besta jólagjöfin
Ágústa Margrét segir að með þessu fái hún sjálf risastóra jólagjöf. „Það er ég sem ver mestum tíma af okkur öllum í að taka til á heimilinu og reyna að hafa hemil á öllu þessu dóti. Með þessu er öll fjölskyldan að hjálpast að við að gefa mér meiri frítíma á aðventunni, sem er besta jólagjöf sem ég get hugsað mér. Það verður minna að taka til og því verða gæðastundirnar fleiri sem við eigum í leik, samveru og útivist, en fyrir það lifum við. Stór partur af því að einfalda lífið með því að eiga færri hluti en meiri upplifanir og gæðastundir.

Okkar lífsstíll snýst um að lifa, njóta, ferðast og leika okkur og þar koma fjármálin vissulega inní. Hversu svekkjandi er að maður sé farinn að borga fasteignagjöld eða af íbúðalánum utan um dót, í stað þess að geta frekar verið í minna húsnæði eða þá búið til pláss til að dansa og leika,“ segir Ágústa Margrét, en hægt er að fylgjast með jóladagatali fjölskyldunnar á Snapchat undir leitarorðinu; whattodoin

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.