
„Lúxus að vinna úti á sumrin og inni á veturna“
Kristín Ágústsdóttir fagnar brátt 20 ára starfsafmæli sínu hjá Náttúrustofu Austurlands en hún tók við starfi framkvæmdastjóra í byrjun árs 2015. Hún segir náttúrustofurnar bæði skipta nærumhverfi sitt máli til að afla þekkingar en líka til að tryggja fjölbreytni í atvinnulífi.„Ég hugsaði alltaf að ég væri að mennta mig til að koma aftur. Þá voru engin tækifæri fyrir náttúrufræðinga úti á landi, að minnsta kosti ekki hér í Neskaupstað. Um það leyti sem ég útskrifaðist voru sett lög um mat á umhverfisáhrifum sem juku mjög spurn eftir þjónustu náttúrufræðinga.
Þar kom mitt tækifæri og árið sem ég útskrifaðist, 1999, var ég ráðinn fyrsti starfsmaður náttúrustofunnar utan forstöðumanns,“ segir Kristín í viðtali í nýjasta tölublaði Austurgluggans.
Heim flutti hún ásamt manni sínum, Marinó Stefánssyni, sem hún kynntist á háskólaárunum. Marinó er frá Þórshöfn og þurft að hennar sögun því ekki mikla sannfæringu til að flytja út á land. Þau hafa síðan búið í Neskaupstað, utan áranna 2011-2013 þegar þau fóru í framhaldsnám til Svíþjóðar.
„Það var alltaf í kollinum á okkur að fara í meira nám og Marinó var byrjaður í fjarnámi við Háskólann í Reykjavík. Krakkarnir okkar voru ofboðslega jákvæð, opin og spennt svo þetta var ekkert mál. Þetta var líka léttara því við vorum alltaf ákveðin í að koma til baka.“
Náttúrustofurnar eru í dag sjö talsins og sinnir hver þeirra sínu landssvæði. Austurlandsstofan er elst, stofnuð árið 1995. „Umhverfið var skapandi og við fengum frelsi um hvað við áttum að gera,“ rifjar hún upp. „Ég sel krökkunum sem koma hingað í starfskynningu að það sé lúxus að vera úti á sumrin og inni á veturna.“
Ekki vandræði að fá ungt fólk úr borginni
Á Náttúrustofu Austurlands vinna í dag átta starfsmenn, þar af sex konur. Kristín hefur oft vakið máls á að náttúrustofurnar auki verulega fjölbreytni í atvinnulífi landsbyggðarinnar. „Eitt af lýðfræðilegum vandamálum fjórðungsins er að það er lítið um menntaðar konur. Hér starfa fimm með háskólamenntun sem er mikið inn í svona lítið samfélag,“ segir Kristín.
Hún segir að vel hafi gengið að ráða fólk til stofunnar, hún geti boðið tækifæri sem náttúrufræðingum bjóðist ekki hvar sem er. „Við höfum dregið til okkar ungt, menntað fólk úr Reykjavík sem ekki hefur tengsl við svæðið.
Við höfum getað boðið tækifæri til að starfa við rannsóknir en þeir sem voru að útskrifast á sama tíma og við vorum síðast að leita að fólki réðu sig í ferðaþjónustu eða annað sem tengdist ekki þeirra fagi. Við sendum út auglýsingu og það sótti fullt af fólki um.
Þetta fólk mætir hins vegar enn takmörkuðum skilningi vina og vandamanna sem spyrja hvað það ætli að vera lengi. Þær tvær konur sem voru ráðnar um það leyti sem ég tók við sem forstöðumaður eru hins vegar rosalega ánægðar.“