Messað undir berum himni í Loðmundarfirði

Um fimmtíu manns sóttu árlega messu að Klyppsstað í Loðmundarfirði sem haldin var síðastliðinn sunnudag. Messað var undir berum himni þar sem viðgerðir standa yfir á kirkjunni.

„Þetta var góður dagur. Það birti til þegar við vorum að koma niður í fjörðinn og veðrið var yndislegt meðan við vorum þarna,“ segir sr. Jóhanna Sigmarsdóttir sem þjónaði fyrir altari ásamt sr. Þorgeiri Arasyni.

Messað var við kirkjugarðinn og messukaffi drukkið að henni lokinni í skála Ferðafélags Fljótsdalshéraðs í firðinum. Jón Ólafur Sigurðsson organisti spilaði í messunni og Bakkasystur frá Borgarfirði leiddu söng.

Kirkjustaður frá fyrstu öldum kristni

Talið er að kirkja hafi staðið í Loðmundarfirði frá fyrstu öldum kristni á Íslandi en elsta heimildin um kirkju í firðinum er frá 1367. Prestur sat á staðnum fram til ársins 1888 en eftir það var farið að þjóna firðinum frá Dvergasteini í Seyðisfirði.

Núverandi kirkja var reist árið 1895 og vígð á jóladag það ár. Byggð lagðist af í firðinum árið 1973 og eftir það taldist kirkjan ekki lengur sóknarkirkja. Kirkjumunir hennar hafa verið varðveittir og taka prestarnir þá með sér til messunnar. Kirkjan er friðað hús og hefur aldrei verið afhelguð. Slíkar kirkjur heyra undir prófast svæðisins.

Fjölsóttar messur

Jóhanna var prófastur þegar hún byrjaði árlegar sumarmessur í Loðmundarfirði árið 2006. Jóhanna lét af störfum árið 2014 en prestar í Egilsstaðaprestakalli hafa viðhaldið hefðinni og hefur Jóhanna oftast verið með þeim.

„Áður en við byrjuðum á þessu höfðum við nokkrum sinnum talað um að það væri gaman að koma þessum sið á og þegar ég var orðinn prófastur gat ég ráðið því. Nær öll þessi ár hefur verið full kirkja af fólki og sumir jafnvel þurft að standa úti. Messurnar hafa ekki bara verið sótt af fólki af svæðinu heldur líka fólki sem hefur verið hér á ferðalagi. Það er ánægjulegt að hefðinni hafi verið viðhaldið til að gefa fólki færi á að eiga þarna góða stund saman,“ segir Jóhanna.

Jóhanna á ýmsar tengingar við Loðmundarfjörð en faðir hennar, Sr Sigmar Ingi Torfason, var prófastur þegar kirkjan var aflögð sem sóknarkirkja. Hann stóð fyrir messu á Klyppsstað eftir viðgerð og endurbætur á kirkjunni 1986.

„Á Klyppsstað hefur verið messað stöku sinnum. Eitt af mínum fyrstu verkum eftir að ég kom austur árið 1999 var að taka á móti sr. Karli Sigurbjörnssyni, biskupi í vistasíu, og þá fórum við til Loðmundarfjarðarog messuðum þar. Mér þykir gleðilegt að fengist hafi styrkur til að gera við hana að þessu sinni.“

Frá messunni á sunnudag. Mynd: Ólafía Herborg Jóhannsdóttir


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.