Mikið fjör á Bræðslunni – Myndir
Uppselt var á tónlistarhátíðina Bræðsluna sem haldin var á Borgarfirði eystra fyrir sléttri viku. Þannig hefur það nær ætíð verið síðan hún var fyrst haldin sumarið 2005.Fyrsta sveit á svið að þessu sinni var Dr. Spock með mikinn hamagang og nokkra gula uppþvottahanska með í för. Kraftmikið rokk sveitarinnar virkaði vel til að koma áhorfendum í stuð.
Dúkkulísurnar voru næstar og spiluðu lög af fyrstu tveimur plötum sínum sem komu út um miðjan níunda áratuginn. Erla Ragnarsdóttir söngkona notaði tækifærin milli laga til að útskýra baráttu ungra stelpna á þeim tíma og upplifun þeirra af veröldinni sem varð kveikjan að mörgum texta þeirra.
Bræðurnir Jón og Friðrik Dór Jónssyni fylgdu í kjölfar þeirra. Ekki verður annað sagt en þeir hafi hrifið þá sem voru í salnum með sér enda var mikið sungið með þeim, á milli þess sem þeir sögðu fimm aura brandara.
Jónas Sigurðsson með sinni hljómsveit var fjórði á svið. Jónas hafði fyrr í vikunni leikið sólóplötur sínar í heild á fernum tónleikum á Borgarfirði en notaði tækifærið þarna til að spila nokkur af sínum þekktustu lögum.
Ungstirnin GDRN og Auður komu á eftir honum. Fyrst GDRN, svo þau saman og loks tók Auður yfir. Á meðan GDRN var róleg og angurvær á sviðinu spriklaði Auður um allt svið og fór jafnvel út í svið.
Síðasta band á svið var Sóldögg. Það naut mikilla vinsælda í kringum aldamót en lítið hefur farið fyrir því síðustu ár. Þrátt fyrir dvalann var spilamennskan þétt, sviðsframkoman lífleg og eflaust rifjaðist upp fyrir mörgum hversu góð hljómsveitin var á sinni tíð.