„Mikil áhersla á sjálfsskoðun í mínum skóla“
„Verkefnið á ég að geyma óopnað fram til ársins 2030, eða í tólf ár, en þá verð ég sjálf 25 ára gömul. Þá get ég séð hvernig ég hugsaði þegar ég var yngri og hvort hugsunin mín varðandi eigin heilsu hafi breyst mikið,“ segir Amalía Malen Rögnvaldsdóttir, 13 ára stelpa ættuð frá Egilsstöðum, um verkefni sem hún vann í skóla sínum í Brussel.
Amalía Malen hefur verið búsett með foreldrum sínum og systur í Brussel í Belgíu í rúm fimm ár, en móðir hennar, Jóhanna Björk Gísladóttir Aspar frá Egilsstöðum, starfar hjá EFTA sem verkefnastjóri í upplýsingatækni fyrir Uppbyggingasjóð EES. Amalía Malen er í áttunda bekk í The International School of Brussels (ISB) en systir hennar, Embla Karí, er í sjötta bekk í sama skóla.
„Skólinn er alþjóðlegur og allt er kennt á ensku, en við lærum samt öll líka frönsku af því að hann er í Belgíu. Verkefnið heitir „Time capsule“ (tímakista) en það snýst um líkamlega-, félagslega- og andlega heilsu. Við þurftum að finna einn hlut fyrir hvert flokk og svo skrifa afhverju þeir hlutir urðu fyrir valinu og hvernig þeir tengjast þér. Við þurftum líka að búa til heilsu-þríhyrning þar sem við skrifuðum hluti sem pössuðu við hvern flokk.
Við skrifuðum svo bréf fyrir okkur sjálf í framtíðinni sem kennarinn les ekki. Ég skrifaði um hvernig lífið mitt væri núna og hvernig ég hélt að lífið hjá framtíðar mér væri. Í grunninn snýst verkefnið um það að hafa djúpann skilning um líkamlega-, félagslega-, og andlega heilsu og að geta tengt það við lífið okkar,“ segir Amalía Malen.
Skrítið að þurfa að hugsa svona langt fram í tímann
Hvernig gekk Amalíu Malen að hugsa svona langt inn í framtíðina? „Ég er orðin frekar vön því að hugsa um viðfangsefni tengd eigin heilsu, en það er mikil áhersla lögð á það í skólanum. Það var samt skrítið að þurfa að hugsa svona rosa langt fram í tímann. Ég hef aldrei gert eitthvað sem ég þurfti að bíða í svona rosalega langan tíma til þess að opna. Ég hef skrifað bréf fyrir sjálfa mig í skólanum sem ég opnaði ári seinna en ekkert sem tók lengri tíma. Núna verð ég orðin fullorðin þegar ég opna þetta, og það er rosalega mikill munur milli 13 ára krakka og 25 ára fullorðinna einstaklinga, ég gæti þess vegna verið komin með börn eftir allan þennan tíma. Ég verð líklega búin að gleyma að ég hafi gert þetta þegar það kemur loksins tími til að opna það. Það verður örugglega skrítið að sjá hvað ég var ung þegar ég skrifaði þetta allt.“
Kostir og gallar við skólana í hvoru landi
Finnst Amalíu Malen mikill munur á skólakerfinu á Íslandi og í Belgíu? „Ég var frekar ung þegar ég flutti þannig að ég man ekki neitt rosalega mikið eftir skólanum á Íslandi, en það sem ég man þá er skólinn bæði betri og verri á mismunandi hátt. ISB er med fullt af fögum sem íslenski skólinn minn var ekki með en skólinn á Íslandi er líka með fög sem ISB er ekki með eins og smíði eða saum. Ég veit ekki hversu mikið er fókusað á sjálfsskoðun (self reflection) á Íslandi en það mikil áhersla á sjálfsskoðun í mínum skóla, ISB.“