„Mikill sköpunarkraftur í ungum stelpum á Austurlandi“

Samtökin Stelpur Rokka! standa fyrir rokkbúðum fyrir stelpur og konur á Austurlandi í sumar. Guðrún Veturliðadóttir framkvæmdarstýra Stelpur Rokka! á Austurlandi segir mikinn sköpunarkraft búa í austfirskum stelpum.

Stelpur Rokka! eru sjálfboðaliðarekin félagasamtök sem vinna að því að jafna kynjahalla í tónlist. „Við erum með rokksumarbúðir fyrir stelpur, bæði cis og trans, trans stráka og kynsegin og intersex krakka. Rokksumarbúðirnar eru oftast 4-5 dagar, þar sem þátttakendum gefst kostur á að læra á hljóðfæri, stofna hljómsveit og semja eigið lag sem síðan er flutt á tónleikum með pompi og prakt á lokadaginn. Í kringum hljómsveitaræfingarnar eru svo vinnusmiðjur, leikir, allskonar þemaumræður og almennt gaman,“ segtir Guðrún.

Hér fyrir austan verða í ár haldnar tvennar rokkbúðir. Kvennarokk fyrir 18 ára og eldri verður á Egilsstöðum núna um helgina og gistirokkbúðir fyrir 12-16 ára á Seyðisfirði 29. júlí - 2. ágúst. „Markmiðið er að hjálpa stelpum að þróa sína eigin sköpun í gegnum tónlist, fá útrás og kynnast öðrum stelpum,“ segir Guðrún

Guðrún segir að það sé smá munur á dagskránni í rokkbúðum fyrir stelpur og rokkbúðum fyrir fullorðnar konur. „Rokkbúðirnar á Seyðisfirði fyrir  12-16 ára á Seyðisfirði enda á lokatónleikum um miðjan dag á föstudeginum sem er frábær leið til að þjófstarta Verslunarmannahelginni. Það verður gisting og kvölddagskrá í boði fyrir þá sem vilja, auk hefðbundinnar rokkbúðadagskrá yfir daginn. Rokkbúðirnar um næstu helgi í Sláturhúsinu á Egilsstöðum eru fyrir 18 ára og eldri, þar er í raun svipað prógramm nema hvað það er styttra og aðeins meira fullorðins. Auk hljómsveitaræfinga, vinnusmiðja og hljóðfærakennslu munum við fá að loka barnum Ask Taproom í nokkra klukkutíma fyrir einka-karaoke. Frí gisting verður í boði fyrir þá sem vilja og við munum einbeita okkur að því í búðunum að búa til þægilegt rými fyrir alla til að prófa ný hljóðfæri, semja tónverk og stíga aðeins út fyrir þægindarammann.“

Aðspurð segir Guðrún að þátttakendur þurfi alls ekki að kunna á hljóðfæri þegar námskeiðið byrjar. „Við erum með kennara og kennum á allt, flestar sem taka þátt hjá okkur hafa aldrei spilað neitt þegar þær koma. Það er það sem er svo magnað við þetta því allir hópar semja lag á þessum stutta tíma.“

Samtökin Stelpur Rokka! voru stofnuð 2012 og hafa verið vaxandi síðan. „Við byrjuðum í Reykjavík sumarið 2012, auk þess að færast út á landsbyggðina með stofnun Stelpur Rokka! Norðurland nokkrum árum seinna, og árið 2018, stofnun Stelpur Rokka! Austurland. Það er búinn að vera rífandi uppgangur í ungum stelpum í tónlist undanfarin ár. Stelpur Rokka! eru mjög stolt af því að gera stelpur og konur sýnilegri í músík, og það eru mikil forréttindi að fá að koma með starfið austur. Við kynntumst því með fyrstu rokkbúðunum okkar í fyrra að hér eru mikill sköpunarkraftur í ungum stelpum, og við hlökkum til að halda verkefnunum áfram í sumar,“ segir Guðrún.

Ennþá eru laus pláss og skráning í fullum gangi fyrir í rokkbúðirnar á stelpurrokka.is.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.