Skip to main content

„Muff var allt í öllu“

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 31. júl 2018 13:46Uppfært 31. júl 2018 13:46

Sumartónleikaröðin Bláa kirkjan á Seyðisfirði fagnar tuttugu ára afmæli sínu í ár. Af því tilefni verður hátíðardagskrá í kirkjunni annað kvöld þar sem minning annars stofnanda hennar, Muff Worden, verður heiðruð.


„Muff kom til landsins árið 1997 til þess að leysa organistann á Seyðisfirði af í eitt ár. Hún var svo ánægð með dvölina að árin urðu níu, en hún lést svo langt fyrir aldur fram, aðeins rétt rúmleg sextug,“ segir Elfa Hlín Pétursdótti, ein þeirra sem kemur að skipulagningu hátíðardagskrárinnar.

Muff starfaði ekki aðeins sem tónlistar- og söngkennari á Seyðisfirði, heldur einnig á Egilsstöðum og í Fjarðabyggð. Hún kom svo á fót sumartónleikaröðinni Bláa kirkjan á Seyðisfirði ásamt Sigurði Jónssyni.

„Muff var yndisleg kona og alveg ofsalega skemmtileg. Hún sá eitthvað tækifæri varðandi kirkjuna, þarna væri fallegt og gott tónleikahús. Hún gaf sig alla í tónleikaröðina, fólkið sem var að koma fram gisti oftar en ekki hjá henni, hún spilaði undir ef þurfti – Muff var allt í öllu. Það var því aldrei annað í myndinni en að halda þessu áfram eftir að hún dó,“ segir Elfa Hlín, en útför Muff var gerð frá Seyðisfjarðarkirkju.

„Blanda af óbundnu máli og tónlistarflutningi“
Dagskráin annað kvöld verður blanda af óbundnu máli og tónlistarflutningi í umsjón leikkonunnar Halldóru Malinar Pétursdóttir. Tónlistina flytja meðal annars þau þau Bergþór Pálsson, Diddú og Anna Guðný Guðmundsdóttir, en þau voru vön að vinna með Muff og hafa margoft komið fram í Bláu kirkjunni.